| Sf. Gutt

Jafntefli í fyrstu umferðLiverpool gerði 1:1 jafntefli við nýliða Fulham í London í fyrstu umferð Úrvalsdeildarinnar. Tvöföldu bikarmeistararnir léku illa. Hefðu getað tapað en líka unnið!

Alisson Becker var búinn að ná sér af meiðslum og tók stöðu sína í markinu. Að öðru var Liverpool með sama lið og hóf Skjaldarleikinn við Manchester City fyrir viku. 

Liverpool lék lengst af mjög vel í Skjaldarleiknum og lagði ensku meistarana að velli. En strax í byrjun leiks sást að annað yfirbragð var á liðinu. Reyndar voru leikmenn Fulham miklu ákveðnari en menn Manchester City voru. Strax eftir nokkrar sekúndur komst Aleksandar Mitrovic inn í vítateig eftir mistök í vörn Liverpool en hann skaut framhjá. Mikill hraði var í leiknum en Fulham átti nokkrar hættulegar sóknir. Leikmenn Liverpool voru syfjulegir og það kom í sjálfu sér ekki á óvart þegar Fulham komst yfir á 32. mínútu. Kenny Tete sendi fyrir frá hægri yfir á fjærstöng þar sem Aleksandar stökk hærra en Trent Alexander-Arnold og skallaði í markið. 

Sex mínútum fyrir hálfleik ógnaði Liverpool loksins þegar Luis Díaz kom sér í færi vinstra megin í vítateignum en skot hans fór í innanverða stöngina fjær. Kólumbíumaðurinn var einna líflegastur hjá Liverpool í fyrri hálfleik en var óheppinn með skotið. Fulham yfir í hálfleik og það sanngjarnt. 

Eftir sex mínútur í síðari hálfleik varð Thiago Alcântara að fara meiddur af velli. Hann virtist hafa tognað aftan í læri. Harvey Elliott kom í hans stað. Um leið var Darwin Nunez sendur til leiks í stað Roberto Firmino. Liverpool slapp vel á 57. mínutu þegar Neeskens Kebano átti skot frá vítateig sem fór í innanverða stöngina og út. Þar hefði Liverpool getað lent tveimur mörkum undir. 

James Milner kom til leiks á 59. mínútu og leikur Liverpool lagaðist talsvert eftir að varamennirnir voru komnir inn á. Á 61. mínútu sendi Mohamed Salah fyrir markið á Darwin sem tók hælspyrnu en markmaður Fulham varði. Tveimur mínútum seinna jafnaði Liverpool. Aftur sendi Mohamed fyrir frá hægri á Darwin Nunez. Hann náði að stýra boltanum með hælnum upp í þaknetið. Vel gert og loksins var Liverpool farið að spila almennilega. 

En þegar allt leit út fyrir að Liverpool væri komið í gang fengu heimamenn gefins víti eða það fannst fylgismönnum Liverpool. Aleksandar komst inn í vítateiginn þar sem Virgil van Dijk sótti að honum. Serbinn féll við að því er virtist án þess að Virgil kæmi við hann. Að minnsta var snerting í allra minnsta lagi. En dómarinn dæmdi víti sem Serbinn skoraði úr. Liverpool undir eftir 64 mínútur. 

Leikmenn Liverpool lögðu ekki árar í bát og þegar tíu mínútur voru eftir var staðan aftur orðin jöfn. Trent gaf fyrir frá hægri. Varnarmaður Fulham náði ekki að skalla frá og boltann féll fyrir fæturnar á Darwin og hrökk af honum til Mohamed sem stóð við hliðina á honum. Egyptinn gat ekki annað en skorað og staðan aftur orðin jöfn. Liverpool var hættulegra liðið undir lokin og í viðbótartíma gaf Harvey út á Jordan Henderson sem skaut bogaskoti vel utan vítateigs sem fór yfir markmann Fulham en því miður hafnaði boltinn í þverslánni. Jafntefli varð því niðurstaðan og það voru sanngjörn úrslit.

Liverpool var langt frá sínu besta í leiknum og það var eins og leikmenn liðsins væru ekki tilbúnir í slaginn gegnum meisturum næst efstu deildar. Liðið sýndi þó seiglu og náði jafntefli. En liðið verður að koma betur stefnt til næstu leikja!

Fulham: Rodák, Tete, Tosin, Ream, Robinson, Reed, Lobo Alves Palhinha Gonçalves, Kebano (Solomon 66. mín.), Pereira (Cairney 89. mín.), De Cordova-Reid (Duffy 90. mín.) og Mitrovic. Ónotaðir varamenn: Leno, Muniz Carvalho, Mbabu, Francois, Harris og Stansfield.

Mörk Fulham: Aleksandar Mitrovic (32. og víti 72. mín.).

Gul spjöld: Kenny Tete og Bobby De Cordova-Reid.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho (Milner 59. mín.), Thiago (Elliott 51. mín.), Salah, Firmino (Núñez 51. mín.) og Díaz (Carvalho 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Gomez, Bajcetic, van den Berg og Chambers.

Mörk Liverpool: Darwin Nunez (64. mín.) og Mohamed Salah (80. mín.).

Áhorfendur á Craven Cottage:
22.207.

Maður leiksins:
Darwin Nunez. Úrúgvæinn kom sterkur til leiks. Var duglegur og ógnandi. Skoraði frábært mark og lagði annað upp.  

Aðstæður: Glampandi sólskin, hægviðri og hiti. 

Jürgen Klopp:
 ,,Þetta var virkilega slæmur leikur hjá okkur. Það eina jákvæða var að við náðum stigi."

Fróðleikur

- Darwin Nunez og Mohamed Salah eru báðir komnir með tvö mörk á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah setti met í efstu deild með því að skora sjöttu leiktíðina í röð í fyrstu umferð deildarinnar.

- Þeir Stefan Bajcetic og Luke Chambers voru í fyrsta sinn í aðalliðshópi Liverpool. 

- Þetta var fjórða keppnistímabilið í röð sem Liverpool mætir nýliðum í deildinni í fyrstu umferð. 

- Liverpool vann þrjá af þessum leikjum þar til koma að jafnteflinu núna. 

- Liverpool hefur ekki unnið þrjá síðustu leiki sína gegn Fulham. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan