| Grétar Magnússon

Tap á Anfield

Unglegt lið Liverpool tapaði fyrir Strasbourg í síðasta æfingaleiknum, lokatölur 0-3.

Byrjunarlið Jürgen Klopp var þannig skipað: Davies, Mabaya, Konaté, Gomez, Chambers, Milner, Bajcetic, Morton, Frauendorf, Elliott, Carvalho. Á varamannabekknum sátu Mrozek, Phillips, Clark, Van den Berg og Musialowski. Það vakti athygli að Naby Keita og Curtis Jones voru ekki með en búist var við því þar sem þeir spiluðu lítið gegn Manchester City deginum áður. Klopp sagði að Keita væri veikur og að Jones hefði fundið fyrir einhverjum óþægindum og ekki verið tekin áhætta með að láta hann spila.Strasbourg skoruðu fyrsta markið eftir aðeins fjórar mínútur. Adrien Thomasson náði boltanum á undan Mabaya í teignum og lyfti boltanum yfir Davies í markinu. Hinumegin átti Carvalho svo skot úr ágætis færi sem fór í hliðarnetið. Á 14. mínútu kom svo annað mark gestanna. Luke Chambers missti boltann til Ludovic Ajorque, hann kom boltanum á Habib Diallo sem skoraði með föstu skoti.

Sjö mínútum síðar var staðan orðin 0-3 þegar Diallo komst upp kantinn hægra megin, hann sendi inná teiginn þar sem áðurnefndur Thomasson stýrði boltanum neðst í markhornið. Gestirnir fengu fleiri færi til að bæta við mörkum í fyrri hálfleik en tókst ekki að bæta við forystuna. Síðasta færið var þó Liverpool manna þegar Stefan Bajcetic skaut að marki beint úr aukaspyrnu en markvörður Strasbourg varði frábærlega. Ekki skemmtilegt að vera 0-3 undir í hálfleik á heimavelli en franska liðið var auðvitað að spila á sínum sterkustu mönnum.

Í stuttu máli urðu mörkin ekki fleiri í seinni hálfleik en okkar menn voru þó meira ógnandi, gestirnir fóru svo illa með gott færi undir lok leiksins. Klopp notaði alla varamenn sína fyrir utan Mrozek en Ibrahima Konaté þurfti að fara af velli vegna meiðsla sem vonandi eru ekki alvarleg. Meiðslalistinn er orðinn óþarflega langur núna rétt fyrir mót.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan