| Grétar Magnússon

Stórsigur

Liverpool mætti RB Leipzig í Þýskalandi og vann stórsigur, 0-5. Darwin Nunez kom inná í hálfleik og skoraði fjögur mörk.

Byrjunarliðið var þannig skipað: Adrian, Alexander-Arnold, Konate, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Thiago, Keita, Diaz, Salah, Firmino. Varamenn: Hughes, Davies, Milner, Gomez, Henderson, Jones, Elliott, Tsimikas, Nunez, Carvalho, Matip, Bajcetic, Phillips, Mabaya, Van den Berg, Morton.

Ánægjulegt að sjá Joe Gomez aftur í leikmannahópnum eftir að hafa misst af leiknum gegn Crystal Palace vegna smávægilegra meiðsla.

Eftir aðeins átta mínútur voru gestirnir komnir yfir. Firmino vann boltann upp við vítateig Leipzig, hann og Salah skiptust á sendingum sem endaði með því að Salah setti boltann í netið. Skömmu síðar var Salah aftur í fínu færi en Gulacsi í markinu varði við nærstöngina. Okkar menn voru mun meira með boltann og oft skapaðist hætta uppvið mark heimamanna. Andy Robertson komst í fína stöðu til að senda fyrir markið þar sem Salah beið eftir boltanum en varnarmaður rétt náði að komast fyrir boltann.

Fyrsta hættan sem Leipzig sköpuðu í fyrri hálfleik var skot frá Angelino sem fór rétt yfir markið. Robertson var svo nálægt því að leggja upp fyrir Firmino, þegar hálfgert skot hans skoppaði fyrir framan markið en Brasilíumaðurinn náði ekki til boltans. Rétt fyrir hálfleik átti svo Christopher Nkunku skot sem Adrian varði vel.

Jürgen Klopp gerði fjórar breytingar í hálfleik þegar þeir Kostas Tsimikas, Joel Matip, Jordan Henderson og Darwin Nunez komu inn fyrir Robertson, Konaté, Keita og Firmino. Aðeins þremur mínútum síðar var brotið á Luis Díaz í teignum og Nunez fór á punktinn. Vítið var kannski ekki það öruggasta sem sést hefur því markvörður Leipzig var í boltanum en skotið var fast og inn fór boltinn.

Tveim mínútum síðar hafði Nunez skorað aftur. Henderson og Thiago unnu boltann á miðjunni, Trent Alexander-Arnold fékk sendingu og hann lagði boltann á Nunez sem kláraði færið sitt afskaplega vel með lágu skoti í fjærhornið.

Eftir klukkutíma leik gerði Klopp fleiri skiptingar. Harvey Elliott var nýkominn inná þegar hann skallaði boltann rétt framhjá eftir fína fyrirgjöf frá Tsimikas. Nunez fullkomnaði svo þrennuna á 69. mínútu þegar hann fékk sendingu á markteig frá Elliott og gat lítið annað en skorað. Úrúgvæinn átti svo skalla sem var varinn og þar hefði fjórða markið vel getað litið dagsins ljós. Það gerði það reyndar skömmu fyrir leikslok þegar Fabio Carvalho kom boltanum til hans eftir vel útfærða skyndisókn. Fjögur fín mörk hjá Nunez og 0-5 stórsigur í höfn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan