| Sf. Gutt

Vonin um Fernuna lifir!Von Liverpool um að vinna Fernuna er enn á lífi! Liverpool hélt voninni á lífi með því að vinna harðsóttan útisigur á Aston Villa í kvöld. Liverpool vann 1:2 og jafnaði stigafjölda Manchester City. 

Fimm breytingar voru gerðar á liði Liverpool enda dagskráin stíf og svo er úrslitaleikur FA bikarkeppninnar á laugardaginn. Curtis Jones kom inn í byrjunarliðið í fyrsta skipti í margar vikur. 

Allir muna niðurlægingu Liverpool á Villa Park í deildinni á síðustu leiktíð. Kannski kom einhverjum í hug að eitthvað svipað yrði uppi á teningnum þegar heimamenn komust yfir eftir aðeins þrjár mínútur. Hörð atlaga Aston Villa hófst með því að Ollie Watkins komst í færi en Alisson Becker varði. Áfram hélt sóknin og eftir fyrirgjöf fór allt í handaskolum í vörn Liverpool. Douglas Luiz skallaði að marki en Alisson varði. Hann hélt ekki boltanum og Douglas náði sjálfur frákastinu og skoraði af stuttu færi. Steve Gerrard fagnaði kannski ekkert ógurlega á hliðarlínunni en hann gat verið ánægður með byrjun sinna manna.

Áfall fyrir Liverpool en það tók Deildarbikarmeistarana ekki nema þrjár mínútur að jafna leikinn. Trent Alexander-Arnold sendi aukaspyrnu inn í vítateginn. Varnarmanni Villa mistökst að hreinsa og við tók mikill atgangur. Diogo Jota kom boltanum á Virgil van Dijk og hann náði að pota honum fyrir markið framhjá markmanni Villa. Félagi Virgil Joël Matip var fyrstur á svæðið og skoraði af stuttu færi. Harðfylgi!

Sadio Mané ógnaði næst á 19. mínútu en skalli hans eftir fyrirgjöf Kostas Tsimikas fór framhjá. Liverpool lék ekki vel í byrjun og um tveimur mínútums seinna lenti Alisson í vandræðum. Hann gaf boltann beint á Ollie en Brsilíumaðurinn náði með herkjum að bjarga sér sjálfur úr vandræðunum. Danny Ings átti svo skalla yfir eftir aukaspyrnu. 

Liverpool varð fyrir áfalli þegar Fabinho Tavarez varð að fara af velli vegna meiðsla á 30. mínútu. Hann virtist tognaður aftan í læri sem er hið versta mál enda úrslitaleikurinn í FA bikarnum á laugardaginn. Vonandi getur hann spilað eitthvað meira það sem eftir er leiktíðar. Jordan Henderson kom inn hans stað og kom ró yfir leik Liverpool eftir að hann kom á miðjuna. Ekki veitti af. 

Fimm mínútum seinna sendi Trent fyrir. Boltinn fór beint á Naby Keita sem var dauðafrír við vítapunktinn en hann kiksaði. Klaufalegt hjá Naby sem hefði í raun átt að skora. Staðan jöfn þegar hálfleikur gekk í garð. 

Liverpool lék mun betur en framan af leik og hafði undirtökin eftir hlé. Fá færi sköpuðust þó og heimamenn börðust vel. Liverpool náði aftur frumkvæðinu á 65. mínútu. Thiago Alcântara, sem kom inn sem varamaður, vann boltann við miðjuna. Boltinn barst til Diogo sem sendi góða sendingu út til vinstri á Luis Díaz. Hann lék fram og gaf svo hárnákvæma sendingu fyrir markið á Sadio Mané sem stýrði boltnaum í markið með höfðinu. Enn skorar Sadio mikilvægt skallamark á Villa Park en allir muna eftir sigurmarki hans á keppnistímabilinu 2019/20 þegar Liverpol varð Englandsmeistari. Danny komst inn í vítateig Liverpool á 68. mínútu en Alisson kom út á móti honum og varði. Frábærlega gert hjá Alisson. Fáir eru betri en hann í að verja einn á móti einum.

Spennan jókst eftir því sem leið að leikslokum. Liverpool varði sinn hlut án mikilla vandræða og vann geysilegan mikilvægan sigur.

Liverpool sýndi mikinn styrk í leiknum og vann lífsnauðsynlegan sigur. Sigurinn heldur voninni um Fernuna á lífi! Vissulega hefur Manchester City öll spil á hendi en á meðan einhverjir leikir eru eftir er lifir vonin.

Aston Villa: Martínez, Cash, Konsa, Mings, Digne, D. Luiz, Nakamba (Chukwuemeka 62. mín.), Coutinho (Buendía 70. mín.), McGinn, Watkins (Traoré 81. mín.) og Ings. Ónotaðir varamenn: Sanson, Chambers, Young, Olsen, Chrisene og Iroegbunam.

Mark Aston Villa: Douglas Luiz (3. mín.).

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Tsimikas, Keïta, Fabinho (Henderson 30. mín.), Jones (Thiago 62. mín.), Díaz (Salah 72. mín.) Mané og Jota. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Milner, Firmino, Gomez og Origi.

Mörk Liverpool: Joël Matip (6. mín.) og Sadio Mané (65. mín.). 

Áhorfendur á Villa Park: 41.919.

Maður leiksins:
Sadio Mané. Þessi magnaði framherji skoraði enn og aftur mikilvægt mark. Hann hefur skorað mikið eftir að hann varð Afríkumeistari fyrr á árinu og hann ætlar að gera allt til að bæta við verðlaunasafna sitt!

Jürgen Klopp: Sjáðu til. Ef leikmennirnir mínir væru ekki sovna góðir væri ég að tala um allt aðra hluti við þig. Hversu góðir þeir eru, hugarfarið og skapstyrkur þeirra er ástæðan fyrir því að við erum þar sem við erum. Ég er ekkert hissa á því að þeir geti þetta en ég tek því aldrei sem gefnum hlut. Ég er mjög stoltur af strákunum í kvöld. Þetta var risasigur.

Fróðleikur

- Þetta var 100. sigur Liverpool á Aston Villa. 

- Joël Matip skoraði annað mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Sadio Mané skorði sitt 22. mark á leiktíðinni. 

- Þetta var níunda markið sem Sadio skorar á móti Villa. Hann hefur skorað þessi mörk í tíu leikjum. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan