| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Aston Villa vs Liverpool

Eftir tvö harkaleg bakslög um helgina, fyrst jafntefli Liverpool við Totteham og svo stórsigur Manchester City, dugir ekki annað en að halda voninni á lífi. Voninni um að vinna Englandsmeistaratitilinn og svo Fernuna. Eina leiðin til að halda voninni á lífi felst í því að vinna næsta leik.


Liverpool heldur annað kvöld á Villa Park í Brirmingham. Villa hefur gengið upp og niður síðustu vikur en unnið síðustu tvo. Liðið er um miðja deild sem er kannski eins og við var að búast. Eins og allir vita stýrir Steven Gerrard liðinu. Hann hefur sett stefnuna á að komast í efri hluta deildarinnar og til þess þarf að ganga vel í síðustu leikjunum.

 

Svo vill til að Aston Villa á eftir að spila bæði við Liverpool og Aston Villa. Við Liverpool á Villa Park annað kvöld eins og áður segir en svo í síðustu umferðinni við Manchester City í Manchester. Villa getur því haft nokkur áhrif á hvað lið verður Englandsmeistari. 

Liverpool lék alls ekki illa í jafnteflisleiknum á móti Tottenham Hotspur. En eftir stóð að Liverpool náði ekki að brjóta Tottenham á bak aftur. Ólíklegt er að Villa pakki í vörn á heimavelli eins og Tottenham gerði á Anfield. Leikurinn verður án efa opnari og það ætti að auka líkur á sigri Liverpool. 


Þurfi Liverpool einhverja hvatningu til afreka á Villa Park þarf ekki annað en að hugsa til niðurlægingarinnar þar í deildinni á síðustu leiktíð. Þar þarf að bæta fyrir. Reyndar hefur Liverpool unnið á Villa Park í FA bikarnum frá 7:2 tapinu illræmda en sama er.

Stórsigur Manchester City á Newcastle United í gær þýðir að liðið er nú ekki bara þremur stigum á undan Liverpool heldur gefur betri markatala líka aukastig ef svo mætti segja. Liverpool þarf því að blása til sóknar og reyna að bæta markatöluna auk þess að ná þremur stigum. Ég spái því að Liverpool vinni 0:3. Fabinho Tavarez, Diogo Jota og Divock Origi skora mörkin. Það verður að halda voninni á lífi!

YNWA!TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan