| Sf. Gutt

Niðurtalningin er hafin. 1. kapítuli


F.A. bikarinn er án efa sú knattspyrnukeppni sem þekktust er í heiminum og hefur hvað mestan dýrðarljóma yfir sér. Það er því okkur stuðningsmönnum Liverpool mikið gleðiefni að sjá liðið okkar í úrslitum keppninnar. Á laugardaginn mætir Liverpool Chelsea í úrslitaleik F.A. bikarsins á Wembley leikvanginum í Lundúnum.

Það er mikil spenna í loftinu í Liverpool og hjá stuðningsmönnum liðsins okkar hvar sem þeir eru til sjós eða lands. Til að magna spennuna, hefst í dag, niðurtalning fyrir úrslitaleikinn á Liverpool.is. Í niðurtalningunni verður margt til fróðleiks um keppnina og árangur Liverpool í henni svo eitthvað sé nefnt.

+ Enska bikarkeppnin er elsta og frægasta útsláttarkeppni í víðri veröld. Keppnin hófst leiktíðina 1871/72 og var fyrst leikið til úrslita í henni vorið 1872. Á þessu keppnistímabili er því haldið upp á að keppnin ár hefur verið haldin í 150 ár. The Wanderes unnu fyrsta úrslitaleikinn þegar þeir lögðu Royal Engineers að velli 1:0.

+ Þátttökurétt eiga öll 92 deildarliðin í ensku atvinnumannadeildunum fjórum auk fjölmargra liða sem leika utan deilda. Keppnin sjálf með forkeppnum stendur yfir mest allt árið og hefst í ágúst eða september.

+ Sigurvegarinn í F.A. bikarnum vinnur sér inn sæti í Evrópudeildinni.

+ Úrslitaleikurinn á laugardaginn verður sá 141. í röðinni.

+ Úrslitaleikir F.A. bikarsins hafa farið fram á eftirtöldum leikvöngum í gegnum tíðina. 1872: Kennington Oval. 1873: Lillie Bridge. 1874 til 1892: Kennington Oval. 1893: Fallowfield í Manchester. 1894: Goodison Park í Liverpool. 1895 til 1914: Crystal Palace. 1915: Old Trafford. 1920 til 1922 Stamford Bridge. 1923 til 2000: Wembley. 2001 til 2006: Árþúsundaleikvanginum í Cardiff. Frá 2007: Nýja Wembley.

+ Eftirtalin lið hafa oftast unnið F.A. bikarinn frá upphafi keppninnar.

14 sinnum: Arsenal.
12 sinnum: Manchester United.
8 sinnum: Chelsea og Tottenham Hotspur.
7 sinnum: Liverpool og Aston Villa.
6 sinnum: Blackburn Rovers, Manchester City og Newcastle United. 
5 sinnum: Everton, W.B.A. og The Wanderes.

+ Alls hafa 43 knattspyrnufélög unnið keppnina frá upphafi hennar.

+ Fyrsti leikur Liverpool í keppninni var háður 15. október 1892. Liverpool vann þá Nantwich 4:0 á útivelli. Liverpool lék þessa leiktíð í Lancashire héraðsdeildinni og þurfti því að fara í gegnum undankeppni. Leikurinn var í 1. umferð undankeppninnar. Það voru þeir Tom Wyllie og J. Miller, sem skoraði þrennu, sem sáu um mörkin í leiknum.

+ Liverpool hefur leikið 25 sinnum í undanúrslitum keppninnar og leikurinn gegn Chelsea verður 15. úrslitaleikur liðsins.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan