| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er svakalegur mánuður framundan hjá okkar mönnum og fyrsti leikur eftir landsleikjahlé er gegn Watford á Anfield. Leikurinn hefst klukkan 11:30 laugardaginn 2. apríl.

Jürgen Klopp var að sjálfsögðu mættur á blaðamannafund fyrir leik og fór yfir stöðu mála eftir hléið. Trent Alexander-Arnold er byrjaður að æfa á ný eftir meiðsli en Klopp sagði að ákvörðun yrði tekin með hann á síðustu stundu. Þetta eru vissulega frábærar fréttir en við giskum á að hann verði ekki með í þessum leik en verði svo tilbúinn í miðri viku gegn Benfica. Naby Keita er að glíma við einhver smávægileg meiðsli og því verður hann að öllum líkindum ekki með og heilt yfir var Klopp jákvæður þegar hann ræddi um þá leikmenn sem spiluðu með landsliðum sínum. Einhverjir leikmenn ferðuðust auðvitað langar vegalengdir en staðan verður metin í dag (föstudag) en allavega er enginn meiddur. Hjá gestunum í Watford er svipaða sögu að segja en Roy Hodgson stjóri þeirra sagði að hann hefði úr næstum öllum leikmannahópnum að velja fyrir þennan leik.

Ef við förum í tippleikinn vinsæla með hverjir verða í byrjunarliði Liverpool þá tippum við á að Alisson verði í markinu. Joe Gomez og Andy Robertson bakverðir og Virgil van Dijk og Joel Matip miðverðir. Á miðjunni verða þeir Fabinho, Thiago og Henderson en eins og venjulega er erfitt að giska á miðju uppstillinguna. Fremstu þrír verða svo Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino. Það er kannski álíka erfitt að giska á fremstu þrjá nú þegar Diogo Jota og Luis Díaz eru til taks en við höldum okkur við þetta.

Liðin eru í harðri baráttu á sitthvorum enda töflunnar og mega illa við því að tapa stigum. Watford unnu sterkan útisigur á Southampton í síðasta leik sínum og það ætti að hafa gefið þeim smá von um að þeir geti haldið áfram að ná í góð úrslit. Þegar þeir líta yfir gengi sitt á Anfield í úrvalsdeildinni gætu verið að þeim lítist hinsvegar illa á blikuna en eini sigur Watford á Anfield kom árið 1999. Síðan þá hafa liðin leikið sex leiki, Liverpool hafa unnið þá alla með markatölunni 22-1 hvorki meira né minna. En sagan hefur auðvitað engin áhrif á þennan leik og heimamenn þurfa að vera 100% klárir í slaginn gegn liði sem mun selja sig dýrt til að ná í stig. Liðin mættust fyrr á tímabilinu á heimavelli Watford og þar sigruðu gestirnir örugglega 0-5. Við vonum auðvitað að úrslitin verði á svipaðan hátt núna en stemmningin þarf að vera góð og þeir sem mæta á leikinn þurfa að vera í sönggírnum þó svo að um hádegisleik sé að ræða. Klopp sagði sjálfur á áðurnefndum blaðamannafundi að þeir sem ætla sér ekki að syngja og styðja liðið eru vinsamlegast beðnir um að gefa miðann sinn áfram til einhvers sem er tilbúinn í verkefnið.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool tryggja sér þrjú stig í leiknum með öruggum 3-0 sigri. Tvö mörk koma í fyrri hálfleik og það þriðja frekar seint í leiknum.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með 20 mörk.

- Hjá Watford er Emmanuel Dennis markahæstur í deildinni með níu mörk.

- Skori Salah í leiknum verður hann markahæstur leikmanna Liverpool í sögunni gegn Watford en sem stendur hafa hann og Ian Rush skorað níu mörk hvor.

- Liðin hafa alls mæst 27 sinnum í deildarkeppni og aldrei hafa leikirnir endað markalausir.

- Liverpool eru í 2. sæti deildarinnar með 69 stig eftir 29 leiki.

- Watford sitja í 18. sæti með 22 stig eftir 29 leiki.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan