| Sf. Gutt

Öruggur sigur


Liverpool vann öruggan sigur eftir hádegið þegar liðið lagði Brighton 0:2 á útivelli. Liverpool náði að draga á Manchester City í toppbaráttunni. Baráttan um titilinn heldur áfram!

Í herbúðum Brighton var sú ákvörðun tekin að liðið skyldi spila í útibúningum sínum. Þeir eru gular treyjur og bláar buxur. Það eru einmitt fánalitir Úkraínu. Vel til fundið hjá Brighton að sýna Úkraínu samstöðu á skelfilegum tímum. 

Heimmönnum hefur gengið illa að undanförnu en þeir mættu Liverpool af fullum krafti, í sól og blíðu á suðurströndinni, til að byrja með. Það fór þó svo að Liverpool komst yfir. Á 19. mínútu lyfti  Joël Matip boltanum laglega fram að vítateig Brighton. Robert Sánchez rauk út úr markinu út á móti Luis Díaz sem skaut sér fram. Luis var á undan og skallaði boltann í autt markið. Robert og Luis skullu saman um leið og Luis skallaði boltann og Kólumbíumaðurinn lá eftir. Hann komst á fætur eftir nokkra stund. Dómarinn hefði auðvitað átt að reka Robert af velli en sá ekki ástæðu til þess. Lygilegt!

Á 33. mínútu braust Sadio Mané fram að vítateig Brighton og endaði á að skjóta. Skotið var laust en Senegalinn hefði bæði getað gefið til vinstri og hægri á félaga sína sem voru betur staddir. Tíu mínútum seinna fékk Liverpool skyndisókn. Mohamed komst inn í vítateiginn vinstra megin en færið var orðið þröngt þegar hann skaut og Robert varði. Liverpool var yfir í hálfleik. 

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn vel líkt og þann fyrri. Leandro Trossard fékk upplagt færi strax í byrjun en skaut yfir. Liverpool náði svo aftur undirtökum. Adam Lallana, kom inn sem varamaður í hálfleik en þurfti að fara af velli átta mínútum seinna. Ekki í fyrsta sinn sem meiðsli setja strik í reikning hans. Á 57. mínútu náði Mohamed að leika sig í skotfæri í vítateignum. Varnarmaður komst fyrir skot hans. Boltinn sveif upp í loftið og datt svo ofan á þverslána. Áfram sótti Liverpool og Sadio átti skot yfir. Luis lagði svo upp færi fyrir Mohamed en hann hitti ekki markið. Þessi harða hríð Liverpool bar árangur á 61. mínútu þegar liðið fékk víti. Naby Keita átti fast skot sem fór í hendina á Yves og ekki annað hægt að dæma víti. Reyndar heldur undarlegt að hann skyldi ekki fá annað gult spjald fyrir að handleika bolta inn í vítateig. Mohamed Salah tók vítið. Hann þrumaði boltanum á mitt markið og fagnaði svo með félögum sínum fyrir framan stúkuna þar sem stuðningsmenn Liverpool voru samankomnir. Þetta var síðasta spark hans í leiknum því hann fór af velli vegna eymsla í öðrum fætinum. Vonandi ekki alvarleg meiðsli!

Liverpool var með öll völd til leiksloka enda forystan orðin góð. Á allra síðustu mínútunum færðist fjör í leikinn. Þegar mínúta var eftir átti varamaðurinn Danny Welbeck skot sem Alisson Becker sló yfir. Liverpool rauk í sókn og Luis komst í færi en var stoppaður. Aftur fengu heimamenn færi en Alisson varði frá Solly March sem slapp inn í vítateiginn. Alisson vel á verði eftir að hafa lengst af verið aðgerðalítill. En sigur Liverpool var öruggur og stuðningsmenn Rauða hersins, sem þurftu að taka daginn snemma, fögnuðu vel í sólinni þegar flautað var til leiksloka. 

Sigur Liverpool var öruggur þó svo liðið hafi oft leikið betur. Aðalatriðið var að ná sigri eftir tap í síðasta leik. Kapphlaupið um Englandsmeistaratitilinn heldur áfram. 

Brighton and Hove Albion: Sánchez, Lamptey, Veltman, Dunk, Cucurella, Alzate (Lallana 45. mín.) (Groß 53. mín.), Bissouma (Welbeck 66. mín.), March, Mac Allister, Trossard og Maupay. Ónotaðir varamenn: Mwepu, Moder, Steele, Duffy, McGill og Leonard.

Gult spjald: Yves Bissouma, Alexis Mac Allister og  Neal Maupay.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Henderson (Milner 86. mín.), Fabinho, Keïta (Thiago 65. mín.), Salah (Jota 65. mín.) Mané og Díaz. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Firmino, Gomez, Jones, Tsimikas og Elliott.

Mörk Liverpool: Luis Díaz (19. mín.) og Moahmed Salah, víti, (61. mín.).

Gult spjald: Fabinho Tavarez.

Maður leiksins: Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn var mjög líflegur. Hann sýndi hetjuskap þegar hann skoraði. Þar fyrir utan var hann alltaf á ferðinni og alltaf ógnandi. 

Jürgen Klopp:
Þetta var erfiður leikur á móti góðum mótherjum. Við þurfum nokkrar mínútur til að fóta okkur. Eftir að við náðum að fóta okkur náðum við að stjórna leiknum. Okkur tókst það virkilega vel.

Áhorfendur á Amex leikvanginum:
31.474.

Fróðleikur

- Luis Díaz skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði 28. mark sitt á keppnistímabilinu. Þar af eru 20 í deildinni. 

- Mark Mohamed var 2000. mark Liverpool eftir að Úrvalsdeildin var stofnsett. Aðeins Manchester United hefur skorað fleiri mörk á sama tímabili eða 2.172.

- Naby Keita lék sinn 100. leik með Liverpool. Hann hefur skorað tíu mörk og lagt upp fimm.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan