| Grétar Magnússon

Áfram í bikarnum

Liverpool komst í 8-liða úrslit FA bikarsins í fyrsta sinn undir stjórn Jürgen Klopp með 2-1 sigri á Norwich. Takumi Minamino skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik.

Klopp gerði hvorki fleiri né færri en 10 breytingar á liðinu frá Deildarbikar sigrinum. Jordan Henderson var sá eini sem byrjaði frá þeim leik en með honum á miðjunni voru Alex Oxlade-Chamberlain og Curtis Jones. Þar fyrir aftan James Milner í hægri bakverði og Kostast Tsimikas vinstra megin, miðverðir voru Konaté og Gomez og Alisson í markinu. Fremstu þrír voru þeir Minamino, Jota og Origi.

Það var ansi kalt á Anfield þetta kvöld en nýkrýndum bikarhöfum var að sjálfsögðu vel fagnað fyrir leikinn. Það tók smá stund fyrir leikmenn að komast í gírinn en á 9. mínútu var Curtis Jones nálægt því að skora glæsilegt mark með skoti vinstra megin úr teignum sem sleikti slána og fór rétt yfir. Markið hefði ekki verið ósvipað því sem hann skoraði gegn Everton einmitt í FA bikarnum árið 2020. Hinumegin fékk Teemu Pukki smá séns þegar boltinn barst til hans en Finninn skaut framhjá. Á 27. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins. Boltanum var vel spilað upp völlinn frá hægri til vinstri og Tsimikas fékk boltann á vinstri kanti í fínni stöðu. Sending hans inná teiginn rataði beint á Origi sem var fyrir miðjum markteig. Flestir bjuggust við því að Origi myndi snúa sér að marki og skjóta en hann lagði boltann til hægri á Minamino sem var í betri stöðu. Japaninn þakkaði fyrir sig með því að þruma boltanum í netið. Sex mínútum fyrir hálfleik skoraði svo Minamino aftur og nú eftir hornspyrnu frá Tsimikas. Norwich menn náðu að skalla frá markteig en Minamino lúrði hægra megin í teignum, lagði boltann fyrir sig og skaut, boltinn fór í nærstöngina og í markið. Frábær afgreiðsla !

Ein skipting var gerð í hálfleik þegar Harvey Elliott kom inn fyrir Jones. Framan af hálfleiknum voru okkar menn mun líklegri og Oxlade-Chamberlain átti skot sem fór í utanverða stöngina. Hávær krafa um vítaspyrnu var svo þegar Jota hafði dansað framhjá nokkrum varnarmönnum og reynt skot að marki sem virtist fara í hendina á Ben Gibson en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma. Jota fékk svo fínt skallafæri í teignum eftir góðan undirbúning hægra megin frá Elliott og Minamino en Portúgalinn náði ekki að stýra boltanum á markið. Fimmtán mínútum fyrir leikslok skoruðu svo gestirnir og settu smá spennu í leikinn. Sargent sendi á Rupp sem lék að vítateignum og skaut föstu skoti sem Alisson náði ekki að verja. Þetta hleypti auðvitað smá spennu í leikinn og Alisson þurfti að vera vel vakandi seint í leiknum þegar Jonathan Rowe komst inní teiginn vinstra megin en skotið var vel varið af Brassanum. Hinumegin var svo Luis Díaz, sem hafði komið inná sem varamaður ásamt Sadio Mané, nálægt því að skora flott mark en skot hans fór rétt framhjá fjær horni marksins. Lokatölur voru 2-1 og áframhaldandi bikargöngu vel fagnað.



Liverpool: Alisson, Milner, Konaté, Gomez, Tsimikas, Oxlade-Chamberlain, Henderson (Morton, 61. mín.), Jones (Elliott, 45. mín.), Minamino, Origi (Mané, 84. mín.), Jota (Díaz, 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Kelleher, Robertson, Matip, Bradley.

Mörk Liverpool: Takumi Minamino (27. og 39. mín.).

Gul spjöld: Henderson og Jota.

Norwich: Krul, Byram, Zimmermann, Gibson, Giannoulis, Rupp (McLean, 77. mín.), Normann (Gilmour, 61. mín.), Lees-Melou, Placheta (Sargent, 45. mín.), Pukki (Dowell, 61. mín.), Rashica (Rowe, 61. mín.). Ónotaðir varamenn: Tzolis, Sörensen, Gunn, Tomkinson.

Mark Norwich: Lukas Rupp (76. mín.).

Gul spjöld: Byram, Sargent og Dowell.

Maður leiksins: Takumi Minamino elskar að skora í bikarkeppnum á þessu tímabili og hann bætti við tveim mörkum í safnið. Japaninn hefur svo sannarlega reynst vel þegar á þarf að halda.

Jürgen Klopp: ,,Þetta var erfiður leikur vegna þess að við áttum kappi við annað úrvalsdeildarlið. Við þurftum að gera 10 breytingar útaf 120 mínútum og vítspyrnukeppni á sunnudaginn. Það tók smá tíma að komast í takt við leikinn en eftir að það náðist stjórnuðum við leiknum og spiluðum okkar bolta."

Fróðleikur:

- Takumi Minamino hefur nú skorað níu mörk á tímabilinu. Tvö mörk í deildinni, þrjú í FA bikar og fjögur í Deildarbikarnum.

- Minamino hefur skorað í sjö af þeim átta leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu á leiktíðinni.

- Eins og áður sagði er þetta í fyrsta skipti sem Liverpool kemst í 8-liða úrslit keppninnar undir stjórn Klopp.

- Sadio Mané spilaði í 250. sinn fyrir félagið í öllum keppnum.

- James Milner hefur nú spilað 50 FA bikarleiki á sínum ferli. Fyrsti leikur hans í keppninni var í febrúar árið 2003 með Leeds gegn Gillingham.

- Dregið verður í keppninni fimmtudagskvöldið 3. mars fyrir leik Everton og Boreham Wood.

- Ljóst er að heimaleik við Manchester United verður frestað en leikurinn átti að fara fram sunnudaginn 20. mars þar sem spilað verður í bikarkeppninni þessa helgi.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan