| Grétar Magnússon

Sigur á Turf Moor

Liverpool vann 0-1 sigur á Burnley í leik sem verður ekki minnst fyrir hátt skemmtanagildi. Fabinho skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

Jürgen Klopp gerði fjórar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Mané, Salah, Henderson og Keita komu inn fyrir Luis Díaz, Jota, Thiago og Jones. Klopp sagði að Jota hefði átt að byrja leikinn en gat ekki æft daginn fyrir leik og því hefði verið ákveðið að láta Mané byrja. Á leikdag kom svo í ljós að Jota var klár í slaginn þannig að hann gat allavega sest á bekkinn.

Leikurinn hófst í leiðinda veðri en töluverð rigning var í Burnley og mikill vindur í ofanálag. Ekki var leikurinn skemmtilegri en veðrið og bæði lið kepptust við að eiga sendingar sem hittu ekki á samherja og hvorugt liðið náði almennilega að halda boltanum innan sinna raða. Burnley menn fengu reyndar hættulegri færi en oftar en ekki flaggaði aðstoðardómarinn rangstöðu þegar hætta hafði skapast og það má alveg deila um hversu sniðugt það er að skipa dómurum að lyfta flaggi sínu eins seint og hægt er í svona aðstæðum. Alisson þurfti að vera vel vakandi sem aftasti maður og varði hann nokkrum sinnum vel í hálfleiknum. Hinumegin áttu gestirnir nokkur skotfæri en skutu yfirleitt beint á Pope í markinu. Á 40. mínútu kom svo eina mark leiksins og var það jafn fallegt og leikurinn sjálfur, þannig séð. Alexander-Arnold tók hornspyrnu sem Mané náði að flikka með höfðinu inná markteig. Þar kom Fabinho á ferðinni, skaut að marki en Pope varði en Brasilíumaðurinn fylgdi frákastinu eftir og tróð boltanum yfir marklínuna. Seinni hálfleikur var svo eins og sá fyrri fyrir utan það að markverðirnir höfðu ekki eins mikið að gera. Það var lítið að frétta fyrr en undir lokin að Salah komst innfyrir og reyndi að koma boltanum til Jota, sendingin var ekki nógu góð og Jota náði ekki að koma boltanum fyrir sig og hættunni var bægt frá. Þetta færi var saga leiksins í hnotskurn, okkar menn duttu því miður niður á Burnley plan í sinni spilamennsku en sem betur fer tókst að herja fram sigur. Lokatölur 0-1 og við munum ekki setja þennan leik í minningarbankann.Burnley: Pope, Roberts, Tarkowski, Mee, Pieters, Lennon, Westwood, Brownhill, Cornet, Rodriguez (McNeil, 62. mín.), Weghorst (Barnes, 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Lowton, Cork, Hennessey, Stephens, Collins, Bardsley, Long.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Henderson (Thiago, 59. mín.), Fabinho, Keita (Milner, 90+2 mín.), Salah, Firmino, Mané (Jota, 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Tsimikas, Oxlade-Chamberlain, Elliott, Díaz.

Mark Liverpool: Fabinho (40. mín.).

Gult spjald: Henderson.

Maður leiksins: Fabinho skoraði eina mark leiksins og fær því nafnbótina að þessu sinni en landi hans Alisson Becker gerir sterkt tilkall einnig.

Jürgen Klopp: ,,Allt var sett upp til þess að við myndum misstíga okkur. Það var erfitt að verjast háu boltunum því vindurinn kom úr öllum áttum en við lékum samkvæmt aðstæðum í stað þess að láta þær hafa áhrif á okkur. Flest færi þeirra voru rangstaða í upphafi en þeir áttu sínar stundir. Við þurftum að leggja mjög hart að okkur og strákarnir gerðu það svo sannarlega, treyjurnar voru grútskítugar eftir leikinn. Ég er ánægður með sigurinn því það er erfitt að sækja þrjú stig hingað."

Fróðleikur:

- Fabinho skoraði sitt sjötta mark á tímabilinu og það fjórða í deildinni.

- Liverpool setti félagsmet með því að vinna sinn fimmta sigur í röð á Turf Moor.

- Þriðja leikinn í röð héldu Liverpool markinu hreinu á þessum velli, sem er einnig félagsmet.

- Burnley höfðu fyrir leikinn ekki tapað á heimavelli síðan í september.

- Liverpool héldu markinu hreinu í 13. sinn í deildinni á tímabilinu.

- Okkar menn sitja í öðru sæti deildarinnar eftir leikinn með 54 stig eftir 24 leiki.

- Burnley eru í botnsæti deildarinnar með 14 stig eftir 21 leik.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan