| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Arsenal vs Liverpool

Liverpool fór illa að ráði sínu í fyrri undanúrslitaleiknum í Deildarbikarnum við Arsenal. Liverpool var manni fleiri tvo þriðju af leiktímanum en náði ekki að færa sér liðsmuninn í nyt.  Leiknum lauk án marka og nú viku seinna ræðst hvort Liverpool eða Arsenal kemst í úrslitaleikinn við Chelsea. 


Aðalmálið í fyrri leiknum var að Liverpool spilaði illa. Reyndar einn slakasta leik sinn á leiktíðinni. Liðið lék vel á móti Brentford á sunnudaginn og liðið á að geta haldið áfram á sömu braut í kvöld. Sadio Mané, Mohamed Salah og Naby Keita eru komnir áfram í Afríkukeppninni og verða ekki til taks. Sama má segja um Alex Oxlade-Chamberlain en óheppnin eltir hann. Alex skoraði á móti Brentford en meiddist á ökkla nokkrum andartökum seinna. Meiðslin eru ekki alvarleg en hann getur ekki spilað í kvöld. 

Liverpool stillti upp sterkasta liði sem völ var á í fyrri leiknum og sama verður örugglega uppi á teningnum í kvöld. Liverpool má ekki láta happ úr hendi sleppa. Það er alltof langt frá því liðið vann annan af bikartitlunum á Englandi. Í ár verða tíu ár liðin frá því Deildarbikarinn vannst síðast. Þó svo Deildarbikarinn sé oft flokkaður sem þriðji eða fjórði mikilvægasti titillinn sem ensk lið geta unnið er gaman að vinna bikarinn góða og Liverpool á glæsta sögu í keppninni sem á að virða með því að taka keppnina alvarlega. 


Ég spái því að Liverpool spili mun betur en í fyrri leiknum og annað er varla hægt. Arsenal er með mjög gott lið en það er óstöðugleiki í liðinu. Skytturnar eru úthvíldar en leik þeirra við Tottenham Hotspur um helgina var frestað. Ef Liverpool leikur nærri því að sem liðið best getur vinnur það sigur. Liverpool vinnur 1:2 í venjulegum leiktíma. Curtis Jones og Diogo Jota skora. 

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan