| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur er í FA bikarnum gegn Shrewsbury Town. Leikurinn er á Anfield og hefst klukkan 14:00 sunnudaginn 9. janúar.

Leikurinn fer fram hvað sem tautar og raular samkvæmt skipun frá enska knattspyrnusambandinu. Það er því ljóst að liðið verður blanda af ungum leikmönnum og þeim eldri sem eru klárir í leikinn. Peter Krawietz aðstoðarmaður Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi degi fyrir leik og sagði að þeir séu tilbúnir með leikmannahóp sem getur spilað og að sjálfsögðu munu þeir gera sitt besta. Hann gaf ekkert upp um fjölda smita innan hópsins enda þurfa leikmenn að taka annað Covid próf til að mega mæta í hús til að æfa. Joel Matip æfði á föstudaginn eftir að hafa misst af leiknum við Chelsea með Covid smit en Krawietz gat þó ekki staðfest hvort hann myndi spila um helgina.

Það er því alveg vonlaust að fara að spá fyrir um liðsuppstillinguna hjá okkar mönnum. Ef allt væri eðlilegt þá myndu einhverjir ungir leikmenn fá tækifæri í bland við aðalliðsmenn eins og reynslan hefur sýnt okkur í gegnum árin hjá Klopp. En þegar smit hefur breiðst út um æfingasvæðið og ekkert verið gefið út um hverjir eru smitaðir þá getum við lítið annað en beðið spennt eftir því að sjá byrjunarliðið. Það eina sem við vitum um liðið eru þeir leikmenn sem eru meiddir eða fjarverandi og er það nú alveg ágætur listi. Nat Phillips, Minamino, Thiago, Origi og Elliott eru allir meiddir en Minamino ætti að hafa byrjað að æfa að fullu. Þá er óvíst með áðurnefndan Matip ásamt Alisson og Firmino sem misstu allir af síðasta leik vegna Covid og svo eru það þeir Salah, Mané og Keita sem eru á Afríkumóti landsliða.

Spáin að þessu sinni er á þá leið að Liverpool tekst að tryggja sér sæti í næstu umferð bikarkeppninnar með 2-0 sigri. Við skulum segja að eitt markanna verði skorað af ungum leikmanni og hitt af öðrum reyndari. Sjaldan hefur spáin rennt jafnt blint í sjóinn og núna en það gerir þetta bara enn meira spennandi !

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan