| Sf. Gutt

Steven Gerrard tekur við Aston Villa!


Það var staðfest um hádegisbilið í dag að Steven Gerrard hefði tekið við sem framkvæmdastjóri Aston Villa. Steven gerði tveggja og hálfs árs samning við félagið. Ráðningarferlið gekk mjög hratt fyrir sig því það var ekki fyrr en í gær sem Steven var alvarlega orðaður við Aston Villa.


Steven Gerrard tók við Glasgow Rangers sumarið 2018. Þegar hann tók við stjórn félagsins hafði Glasgow Celtic unnið skoska meistaratitilinn sjö ár í röð og aðalverkefni Steven var að ná meistaratitlinum af Celtic. Celtic komst í níu meistaratitla í röð en Steven bætti liðið jafnt og þétt og á síðasta keppnistímabili, 2020/21, varð Rangers Skotlandsmeistari í 55. sinn. Ekki nóg með það heldur tapaði Rangers ekki leik í deildinni. Það má því segja að Steven hafi náð markmiðinu sem stefnt var að þegar hann var ráðinn sem framkvæmdastjóri. 

Steven náði ekki að vinna bikartitil í Skotlandi en á keppnistímabilinu 2019/20 komst Rangers í úrslitaleik Deildarbikarsins. Liðið mætti Celtic og mátti þola 1:0 tap eftir að hafa haft yfirburði í leiknum. Það er þó ekki spurning að Rangers efldist mikið á valdatíma Steven. Liðið komst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og náði þokkalegum árangri í keppninni. Liðið er mun sterkara en þegar Steven tók við því 2018.


Víst er að mörgum stuðningsmönnum Rangers líkar ekki að Steven skyldi yfirgefa félagið í miðju kafi á þessari leiktíð. En Steven mat stöðuna greinilega svo að hann gæti ekki sleppt því tækifæri að taka við liði í Úrvalsdeildinni á Englandi á þessu tímapunkti. Eftir réttan mánuð kemur Steven Gerrard á Anfield Road með nýja liðið sitt og stýrir því á móti Liverpool!

Það er ekki nokkur vafi á því að þetta nýja starf mun reyna mikið á framkvæmdastjórahæfileika Steven Gerrard. Hann fær það hlutverk að koma Aston Villa upp í efri hluta deildarinnar og í baráttu um titla. Eigendur Aston Villa eru vel fjáðir og hafa eytt háum upphæðum í að styrkja liðið. Sem stendur er Aston Villa í 16. sæti deildarinnar aðeins tveimur stigum fyrir ofan fall. Liðið hefur tapað fimm síðustu leikjum sínum. Það er því ærið verkefni framundan hjá Steven Gerrard!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan