| Sf. Gutt

Mohamed Salah hlýtur virt verðlaun


Mohamed Salah fékk á dögunum virt verðlaun fyrir störf að mannúðarmálum. Um er að ræða Laureus Sporting Inspiration verðlaunin. Þessi verðlaun hafa verið veitt frá árinu 1999. Verðlaunin eru veitt í nokkrum flokkum og eru íþróttamenn og lið verðlaunuð á hverju ári. 

Verðlaunaflokkurinn sem Muhamed Salah fékk verðlaun í er nefndur hvatningarverðlaun íþróttafólks.  Í umsögn sem fylgdi verðlaununum segir svo. ,,Árið sem Salah hjálpaði Liverpool Football Club til fyrsta Englandsmeistaratitilsins í 30 ár studdi hann líka við uppbyggingarverkefni í heimabæ sínum. Hann lét fé af hendi rakna til þess að hægt væri að byggja skóla, sjúkrahús og eins til kaupa á sjúkrabíl."

Mohamed sagðist taka við verðlaununum með stolti. ,,Árið 2020 var mjög erfitt fyrir margt fólk um víða veröld á mörgum sviðum. Sumir gátu ekki verið hjá fjölskyldu og vinum. Sumir misstu sína nánustu. Við þurfum að læra af þessari reynslu. Styðja við hvort annað og horfa til framtíðar."

,,Knattspyrnumenn þakka stuðningsmönnum sínum gjarnan sjálfkrafa þegar þeir fá verðlaun. Í þetta sinn vil ég tileinka verðlaun, ekki bara stuðningsmönnum mínum, heldur öllu íþróttaáhugafólki um víða veröld.  Síðast liðið ár hefur minnt okkur rækilega á að íþróttir, þar með talin knattspyrna, eru ekkert án íþróttaáhugafólks. Maður kemur í manns stað í íþróttaheiminum en það kemur enginn í staðinn fyrir stuðningsmennina. Ég enda með þessum oðrum og þakka enn og aftur kærlega fyrir mig."

Mohamed Salah hefur unnið að góðgerðar- og mannúðarmálum í mörg ár. Hann hefur látið stórfé af hendi rakna til ýmiskonar mála í heimalandi sínu og á sínum heimaslóðum í Egyptalandi. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan