| Sf. Gutt

Þrjú hundruð mörk!


Þó svo markið sem Sadio Mané skoraði á móti Leeds United á Elland Road hafi ekki dugað til sigurs var það sögulegt. Skytturnar þrjár, Roberto Firmino, Sadio Mané og Mohamed Salah, hafa nú skorað 300 mörk fyrir Liverpool. Magnaður árangur í meira lagi!

Roberto Firmino kom fyrstur þeirra pilta til Liverpool en hann hóf að spila með Liverpool á leiktíðinni 2015/16 eftir að hann var keyptur frá Hoffenheim. Sadio Mané kom ári seinna frá Southampton og lék fyrst með Liverpool 2016/17. Mohamed Salah bættist svo í hópinn á keppnistímabilinu 2017/18 eftir að hann kom frá Roma. 


Þeir þrír hafa nú leikið saman með Liverpool í að verða fjórar leiktíðar. Frá því Roberto kom til Liverpool sumarið 2015 hafa þeir félagar skorað samtals 300 mörk fyrir Liverpool. Þeir félagar hafa ekki látið sitt eftir liggja í stoðsendingum en þeir hafa samanlagt lagt upp 136 mörk fyrir liðsfélaga sína. Alls hafa þeir spilað 695 leiki fyrir hönd Liverpool. 

Hér að neðan er árangur hvers og eins sundurliðaður. Tölurnar voru teknar saman eftir leik Liverpool og Leeds United. Roberto Firmino: 286 leikir - 84 mörk - 61 stoðsending. Sadio Mané: 212 leikir - 94 mörk - 34 stoðsendingar. Mohamed Salah: 197 leikir - 122 mörk - 41 stoðsending. 

Mohamed Salah hefur raðað inn mörkum á leiktíðinni. Hann er nú kominn með 29 mörk sem er frábær árangur. Þeir Roberto Firmino og Sadio Mané hafa átt erfitt uppdráttar í þeim efnum. Sadio er með 13 mörk og Roberto sex. En í þessi að verða fjögur keppnistímabil hafa skytturnar þrjár sannarlega skilað sínu til Liverpool! TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan