| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Arsenal v Liverpool

Liverpool hefur leik eftir langt bikar- og landsleikjahlé í London í kvöld þegar Englandsmeistararnir taka hús á bikarmeisturum Arsenal. Framundan er stíf dagskrá hjá Liverpool og í raun má segja að endaspretturinn á keppnistímabilinu hefjist á Emirates leikvanginum. 


Liverpool á aðeins tölfræðilega möguleika á að verja Englandsmeistaratitilinn en það er að miklu að keppa til vors. Margir hafa afskrifað möguleika Liverpool á að vinna sér inn eitt af efstu fjórum sætum deildarinnar. En það er samt möguleiki og alls ekki svo fjarlægur. En til þess að Liverpool geti náð einu af Meistaradeildarsætunum þarf liðið að vinna svo til alla sína leiki sem eftir eru og vonast eftir því að liðin fyrir ofan misstigi sig. Það er auðvitað mun betra að hafa allt í eigin höndum en við sjáum hvað setur. 


Svo er það Evrópubikarinn. Hann er laus til umsóknar. Liverpool ætti að geta unnið hann eins og þau lið sem eftir eru. Ekki spurning. Mín skoðun er sú að fjarvera stuðningsmanna Liverpool minnki möguleika liðsins geysilega mikið. Ef stuðningsmenn Liverpool væru til staðar gæti Evrópubikarinn vel unnist en varla án þeirra.

  

Fríið ætti að hafa verið gott og menn úthvíldir. Reyndar voru þó nokkrir leikmenn Liverpool í landsliðsverkefnum en mönnum gekk almennt vel og þeir ættu að fullir sjálfstrausts. Meiðslastaðan hefur sjaldan verið betri þó lykilmenn séu auðvitað ennþá frá. Roberto Firmino er búinn að skila sér eftir meiðsli en hann missti af síðustu leikjunum fyrir hlé. Um tíma var vonast til að Jordan Henderson gæti leikið en hann verður eitthvað lengur frá og jafnvel lengur en álitið var. En eftir þessa hvíld ætti Liverpool að geta sýnt sitt allra besta. Krafan er að liðið geri það!


Liverpool hefur ekki unnið í síðustu þremur heimsóknum sínum á Emirates leikvanginn og tími kominn til að breyta því. Tapið þar í fyrrasumar var rannsóknarefni eftir mikla yfirburði. Arsenal er vissulega með mjög gott lið en það eru miklar sveiflur í leik liðsins. Liverpool og Arsenal hafa leikið þrívegis á leiktíðinni. Arsenal hafði tvívegis betur í vítakeppnum. Fyrst í leiknum um Samfélagsskjöldinn og svo í Deildarbikarnum. Liverpool vann öruggan 3:1 sigur í deildarleiknum á Anfield í einum af betri leikjum leiktíðarinnar. Ég spái sömu úrslitum. Liverpool vinnur 1:3. Diogo Jota skorar tvö og Mohamed Salah eitt. Lokaspretturinn er að hefjast og eins fyrir alla að vera tilbúna í rásholunum!


YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan