| Sf. Gutt

Fyrir tíu árum!


Fyrir tíu árum seinna varð endurkoma allra tíma að veruleika. Kenny Dalglish tók þá við stjórn Liverpool af Roy Hodgson. Roy var ráðinn til Liverpool sumarið 2010 en liðinu gekk ekki vel undir hans stjórn.

Að morgni laugardagsins 8. janúar 2011 var tilkynnt á opinberri vefsíðu Liverpool Football Club að Roy Hodgson væri hættur sem framkvæmdastjóri Liverpool. Eftirfylgjandi frétt var birt á Liverpool.is í framhaldinu.

,,Roy Hodgson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Liverpool og Kenny Dalglish tekur við stjórn liðsins. Þetta var staðfest rétt í þessu á vefsíðu Liverpool, Liverpoolfc.tv. Roy Hodgson tók við stjórn Liverpool þann 1. júli síðast liðinn og gerði þá þriggja ára samning við félagið."

,,Tekið var fram í yfirlýsingunni að samkomulag hefði tekist, milli Roy Hodgson og eigenda Liverpool, um að Roy myndi hætta með liðið á þessum tímapunkti."

,,Sem fyrr segir hefur Kenny Dalglish tekið við stjórn liðsins frá og með deginum í dag. Hann mun stjórna liðinu til loka leiktíðar og verður fyrsta verkefni hans að velja og stjórna liðinu gegn Manchester United í F.A. bikarnum á morgun. Kenny Dalglish var framkvæmdastjóri Liverpool frá 1986 til 1991 en síðustu misseri hefur hann verið sérlegur sendiherra félagsins."

Kenny Dalglish var í fríi með fjölskyldu sinni á skemmtiferðaskipi í Persaflóanum þegar eigendur Liverpool höfðu samband við hann og báðu hann að taka við sem framkvæmdastjóri Liverpool. Kóngurinn sagði já við beiðninni og seinna sagði hann að það hefði verið móðgun við félagið að reyna ekki að hjálpa til þegar hjálpabeiðni hefði borist. 


Að kvöldi 8. janúar kom Kenny til Liverpool með flugi frá Dubai til Englands. Myndin að ofan var tekin á flugvellinum í Manchester þegar Kenny var lentur. Um kvöldið var birt viðtal við Kenny á sjónvarpsstöð Liverpool og daginn eftir stýrði hann Liverpool í FA bikarleik gegn Manchester United á Old Trafford. 

Kenny stjórnaði Liverpool til vors 2012 en þá ákváðu eigendur Liverpool að skipta um mann í brúnni. Kenny vann Deildarbikarinn með Liverpool 2012 en þá vann Liverpool Cardiff City í vítaspyrnukeppni á Wembley. Brendan Rodgers tók við um vorið en Kenny kom seinna til starfa hjá félaginu og tók sæti í stjórn þess. 


Það er ljóst að  endurkoma Kenny Dalglish í byrjun árs 2011 skipti sköpum fyrir Liverpool. Roy Hodgson hefur verið hart dæmdur en hann réði sig ekki til félagsins. Hann var þó rangur maður á röngum stað á röngum tíma. Staðan hjá félaginu var mjög slæm þegar Roy tók við sumarið 2010 og um haustið björguðu núverandi eigendur félaginu í raun úr höndum fyrri eigenda og um leið frá gjaldþroti sem hefði haft skelfilegar afleiðingar.


Stuðningsmenn Liverpool voru ósáttir við allt og alla. Það þurfti að sameina félagið og stuðningsmenn þess. Það gerði Kenny Dalglish eins og hendi væri veifað og mín skoðun er sú að engin nema hann hefði getað það á þessum tímapunkti. Rekja má velgengni félagsins núna síðustu árin til þess að Kóngurinn kom aftur!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan