| Sf. Gutt

Gerry Marsden látinn


Gerry Marsden, söngvari Gerry and the Pacemakers, lést í dag eftir stutt veikindi. Hann með hljómsveit sinni gerði lagið You'll Never Walk Alone vinsælt og í kjölfarið tóku stuðningsmenn Liverpool að syngja það. Lagið varð svo einkennissöngur Liverpool.


Gerry fæddist í Liverpool 24. september 1942. Hann stofnaði hljómsveitina Gerry and the Pacemakers árið 1959. Hún var á tímabili með vinsælli hljómsveitum á Bretlandi og kom þremur lögum í toppsæti vinsældarlistans á Bretlandi árið 1963. Fyrst How Do You Do It?, I like It og svo  You'll Never Walk Alone. Þessi lög voru þrjú fyrstu smáskífulög hljómsveitarinnar og hafði það aldrei gerst áður að þrjú fyrstu lög hljómsveitar kæmust á toppinn.

Framan af ferli Gerry and the Pacemakers voru þeir í samkeppni við The Beatles. Reyndar var mikill vinskapur milli meðlima þessara hljómsveita. Hljómsveitin spilaði til 1966 og tók svo upp þráðinn aftur árið 1972 og spilaði lengi við ýmis tækifæri. Gerry var svo sjálfur á ferðinni með tónleika allt þar til 2018. Hann fékk MBE orðuna frá Bretadrottningu árið 2003 fyrir störf að góðgerðrmálum.

Gerry starfaði mikið að góðgerðarmálum. Árið 1985 stóð hann fyrir útgáfu á You'll Never Walk Alone til styrkar fjölskyldna þeirra sem fórust í brunanum á Valley Parade heimavelli Bradford City. Þar fórust 56 manns. Hann hljóðritaði svo Ferry Cross the Mersey, árið 1989, til styrktar þeim sem áttu um sárt að binda eftir harmleikinn á Hillsborough. Þessa plötu vann hann með Paul McCartney og fleiri tónlistarmönnum frá Liverpool.

 

Stuðningsmenn Liverpool fóru að syngja You'll Never Walk Alone á leikjum þegar lagið varð vinsælt 1963. Stuðningsmenn fleiri liða sungu lagið líka en nú má segja að lagið sé fastast tengt Liverpool, Celtic og Borussia Dortmund. 

Fljótlega varð lagið fastur liður á söngskrá stuðningsmanna Liverpool og hefur í áratugi verið spilað fyrir alla heimaleiki Liverpool á Anfield Road. Gerry söng lagið fyrir leik Liverpool og Blackburn haustið 2010 og þá var myndin efst á síðunni tekin. Gerry var alla tíð stuðningsmaður Liverpool og kom oft á leiki liðsins.  

Hvíl í friði Gerry!

YNWA!

Hér eru myndir frá ferli Gerry af vefsíðu Liverpool Echo.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan