| HI

Kelleher: Ekki alltaf markvörður

Það ráku margir upp stór augu þegar byrjunarliðið gegn Ajax var tilkynnt og í ljós kom að Caoimhin Kelleher var í byrjunarliðinu. Fyrir utan það að margir vissu ekki af því að Alisson hefði meiðst voru menn hissa á að Adrian hefði ekki verið valinn í staðinn.

Jürgen Klopp sagði hins vegar eftir leikinn að valið hafi verið auðvelt. "Við þurftum eiginleika Caoimhins í kvöld. Hann er góður milli stanganna en líka góður í fótunum. Við þurftum það fyrir pressuna frá Ajax, sendingar hans í auð svæði og annað slíkt. Hann gerði það vel, en á endanum snýst þetta um markvörslur, að halda boltanum frá markinu. Hann gerði það að minnsta kosti tvisvar frábærlega."

Það sem gerir þennnan uppgang Kelleher kannski enn eftirtektarverðari er að hann byrjaði ekki að spila í marki fyrr en hann var 15 ára - fyrir sjö árum. Hann spilaði með Ringmahon Rangers í heimalandi sínu, Írlandi og þar þótti hann afar liðtækur framherji. Hann komst meira að segja í írska unglingalandsliðið í þeirri stöðu.

Markvarðarstaðan var vandræðastaða í liðinu. Þeir voru með einn sem var að spila upp fyrir sig og þegar hann hætti skyndilega að æfa voru góð ráð dýr. Faðir Caoimhins, Ray, hringdi þá í Eddie Harrington þjálfara hans, og lagði til að strákurinn yrði settur í markið. Harrington og öðrum þjálfurum leist ekki á þessa hugmynd, því með því væru þeir að missa aðalmarkaskorara sinn. Á hinn bóginn hafði faðirinn sjálfur þjálfað hann og hans mat var að hann gæti orðið góður í þeirri stöðu. Hann hefði í raun lagt þetta til fyrir löngu ef liðið hefði ekki þegar markmann innan sinna raða. Svo þjálfararnir ákváðu að láta reyna á það.

Skemmst er frá því að segja að þetta reyndist mikið gæfuspor. Kelleher hafði aðeins spilað þessa stöðu í nokkra mánuði þegar hann var farinn að vekja athygli stórliða. Og líkur eru á að hann njóti góðs af tíma sínum sem framherji þegar hann þarf að nota fæturna í markvarðarstöðunni.

Blackburn og Aston Villa voru lið sem reyndu að fá hann til sín og hann lék meira að segja nokkra unglingaliðsleiki með Villa. Þegar Liverpool sóttist eftir honum var valið hins vegar auðvelt og þar hefur hann verið frá árinu 2015. Hvernig framhaldið verður á ferli hans með liðinu verður tíminn svo að leiða í ljós.

Fiacre, eldri bróðir Caoimhin, spilar með Wrexham. Hann er varnarmaður. Þrír eldri bræður Caoimhin spiluðu írsku íþróttina hurling. Þeir bræður eru því miklir íþróttamenn. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan