| Sf. Gutt

Philippe Evrópumeistari


Philippe Coutinho varð í gærkvöldi Evrópumeistari með Bayern Munchen. Þýska liðið vann Paris Saint Germain 1:0 í Lissabon. Þetta var í sjötta sinn sem Bayern vinnur Evrópubikarinn. Bayern vann Þrennu í annað sinn í sögu félagsins. Það er deild, bikar og Evrópubikarinn. Philippe kom inn á sem varamaður í leiknum. 

Þegar Philippe fór frá Liverpool til Barcelona sagðist hann fara þangað til að vinna Evrópubikarinn. Það tókst ekki því Liverpool sló Barcelona út úr Meistaradeildinni í fyrravor eins og allir muna. En nú hefur Philippe unnið Evrópubikarinn en bara ekki með Barcelona heldur Bayern Munchen. Merkilegt!

Philippe er lánsmaður frá Barcelona en þangað fór hann frá Liverpool í janúar 2018. Hann hefur enn ekki náð sér almennilega á strik hjá Barcelona og reyndar ekki heldur hjá Bayern. Hann fór í lán til Bayern í fyrra og átti þýska liðið kost á að kaupa hann. Það stendur ekki til og Philippe fer því aftur til Barcelona.

Kannski hafa skipast veður í lofti með stöðu hans hjá Barcelona því Ronald Koeman, hinn nýi framkvæmdastjóri þar á bæ, segist vilja hafa hann hjá félaginu. Philippe hefur verið orðaður við endurkomu til Liverpool svo til frá því hann fór en líklega verður sú endurkoma aldrei. 


Philippe hefur bætt vel við verðlaunasafn sitt eftir að hann fór frá Liverpool. Hann vann Þrennu með Bayern á þessari leiktíð. Hjá Barcelona varð hann spænskur meistari 2018 og 2019. Hann vann spænsku bikarkeppnina og Stórbikar Spánar 2018. Þrátt fyrir þessa velgengni í titlum er talið að Philippe sjái eftir því að hafa yfirgefið Liverpool. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan