| Sf. Gutt

Flugeldasýning í krýningarleiknum!


Það var flugeldasýning á Anfield í kvöld þegar Liverpool vann Chelsea 5:3. Bæði í krýningarleiknum og svo aftur eftir leik þegar Englandsmeistararnir voru krýndir og hylltir. Kvöldstund sem fer í annála Liverpool Football Club!

Naby Keita kom inn í byrjunarliðið en annars var það óbreytt frá leiknum á móti Arsenal. Liðin komu ákveðin til leiks og skiptust á um að sækja framan af leiknum. Chelsea hafði að miklu að keppa þar sem liðið er í harðri baráttu um eitt af fjórum efstu sætunum í deildinni. Ekkert var um opin færi þar til Liverpool komst yfir á 23. mínútu. Naby Keita vann boltann á miðjum vallarhelmingi Chelsea og braust fram völlinn. Um 30 metra frá marki þrumaði hann boltanum að marki. Boltinn þaut í gegnum loftið í þverslána og inn í markið. Stórglæsilegt mark hjá Naby.

Liverpool bætti enn í á 38. mínútu. Dæmd var aukaspyrna á Chelsea um 30 metra frá marki. Leikmenn Chelsea mótmæltu þar sem þeir töldu rangt dæmt en dómurinn stóð. Trent Alexander-Arnold tók spyrnuna og sendi boltann rakleitt í markið út við stöng hægra megin. Kapa Arrizabalaga hreyfði sig varla í markinu. Glæsilegt mark og eiginlega nákvæmlega eins og markið sem Trent skoraði á móti Crystal Palace um daginn. Aukaspyrnan var svo til á sama stað og Trent miðaði á sama stað á markinu!

Fimm mínútum seinna komst Liverpool í 3:0. Andrew Robertson tók horn frá vinstri. Boltinn hrökk milli manna við markteiginn áður en hann rataði til Georginio Wijnaldum  sem þrumaði honum upp undir þaknetið. Enn var Kapa hreyfingarlaus í markinu. Liverpool komið með örugga forystu en Chelsea náði að svara í blálok hálfleiksins. Olivier Giroud skoraði þá af stuttu færi eftir að Alisson Becker hafði ekki náð að halda skoti frá Willian. Staðan 3:1 í hálfleik.


Snemma í síðari hálfleik slapp Mahamed Salah einn í gegnum vörn Chelsea en skot hans var alveg misheppnað og fór framhjá. Á 54. mínútu komst Liverpool í 4:1. Eftir gott spil fram völlinn fékk Trent boltann út til hægri. Hann sendi inn í vítateiginn og hitti beint á höfuðið á Roberto Firmino sem skoraði örugglega með skalla. Í þriðja sinn var Kapa grafkyrr í marki sínu. Loksins, loksins kom deildarmark hjá Roberto á Anfield. Fyrsta deildarmark hans á heimavelli kom á síðustu stundu því þetta var auðvitað síðasti heimaleikur Liverpool á þessu keppnsitímabili!

Eftir tæpan klukkutíma leik gerði Frank Lampard breytingar á liði sínu og þær voru fljótar að skila sér. Á 61. mínútu skoraði Tammy Abraham af stuttu færi eftir magnaða rispu og sendingu Christian Pulisic. Christian komst í gott skotfæri rétt á eftir en skaut framhjá. Bandaríkjamaðurinn var ekki búinn að segja sitt síðasta og á 73. mínútu fékk hann boltann inni í vítateignum eftir sendingu frá hægri. Hann lagði boltann fyrir sig, sneri sér snöggt við og þrumaði boltanum upp í markhornið. Allt í einu munaði aðeins einu marki!

Chelsea voru skiljanlega ógnandi eftir þetta enda hefði jafntefli skipt miklu fyrir þá. En Englandsmeistararnir slökktu von Chelsea um frekari endurkomu sex mínútum fyrir leikslok. Chelsea fékk aukaspyrnu utan við vítateig Liverpool. Vörn Liverpool hreinsaði. Boltinn gekk fram á Andrew sem stakk einn leikmanna Chelsea af og æddi fram vinstri kantinn. Hann sendi svo fyrir markið. Curtis Jones lét boltann fara til Alex Oxlade-Chamberlain sem smellti boltanum viðstöðulaust upp undir þverslána. Fullkomin skyndisókn og sigur Liverpool í höfn! 

Liverpool sýndi sínar bestu hliðar á köflum í krýningarleiknum í kvöld. Frábær mörk og góð tilþrif. Það var gaman að vinna síðasta heimaleikinn á leiktíðinni til að geta bæði fagnað sigri í leiknum og svo Englandsmeistaratitlinum!

 
Við tók krýningarathöfnin í Kop stúkunni. Leikmenn Liverpool tóku við verðlaunapeningum sínum úr hendi Kenny Dalglish. Hápunktur kvöldsins var þegar Jordan Henderson tók við Englandsbikarnum og hóf hann á loft. Hafi einhver efast þá innsiglaði sú stund þá staðreynd að Liverpool er Englandsmeistari í 19. sinn!

Liverpool: Alisson: Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson; Keita 8 (Jones 66. mín.), Fabinho, Wijnaldum (Milner 66. mín.); Mané (Origi 87. mín.), Salah (Oxlade-Chamberlain 79. mín.) og Firmino 8 (Minamino 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Lallana, Lovren og Shaqiri. 

Mörk Liverpool: Naby Keita (23. mín.), Trent Alexander-Arnold (38. mín.), Georginio Wijnaldum (43. mín.), Roberto Firmino (55. mín.), og Alex Oxlade-Chamberlain (84. mín.).

Gult spjald: Joe Gomez.

Chelsea:
Arrizabalaga: Azpilicueta, Zouma, Rudiger, Alonso (Emerson 88. mín.); James, Kovacic, Jorginho; Mount (Hudson-Odoi 59. mín.), Giroud (Abraham 59. mín.) og Willian (Pulisic 59. mín.). Ónotaðir varamenn: Cabellero, Christensen, Loftus-Cheek, Pedro og Tomori. 

Mörk Chelsea: Olivier Giroud (45. mín.), Tammy Abraham (61. mín.) og Christian Pulisic (73. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: Kenny Dalglish, Ian Rush, nokkrir af helstu ráðamönnum félagsins og fjölskyldur leikmanna meistaranna. 

Maður leiksins: Naby Keita. Gíneumaðurinn skoraði frábært mark og var mjög sterkur á miðjunni. Hann hefur átt nokkuð erfitt með að sýna sitt besta frá því hann kom til Liverpool enda hafa meiðsli truflað hann. Það er þó ljóst að Naby er frábær þegar hann er upp á sitt besta.  

Jürgen Klopp: Ég gæti ekki verið stoltari af leikmönnunum eftir að þeir spiluðu svona vel í kvöld. Leikurinn var auðvitað opinn en flottur samt. Fínustu mörk. Ótrúleg mörk, frábær knattspyrna á köflum og ég naut leiksins sannarlega. Núna munum við njóta þess sem lifir af kvöldinu.

Fróðleikur

- Liverpool er Englandsmeistari 2019/20.

- Liverpool er enskur meistari í 19. sinn.

- Liverpool vann alla heimaleiki sína í deildinni nema einn sem lauk með jafntefli. Það er nýtt félagsmet.

- Þetta var 31. sigur Liverpool í deildinni á leiktíðinni. Það er nýtt félagsmet. Áður hafði Liverpool mest unnið 30 deildarleiki á sömu sparktíðinni. 

- Naby Keita og Trent Alexander-Arnold skoruðu báðir í fjórða sinn á leiktíðinni.

- Georginio Wijnaldum skoraði sjötta mark sitt á sparktíðinni. 

- Roberto Firmino skoraði 12. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Þetta var fyrsta mark hans á Anfield í deildinni á þessari leiktíð. Hann var búinn að spila 20 deildarleiki í röð án þess að skora á Anfield.

- Alex Oxlade-Chamberlain lauk markaskorun Liverpool á þessari mögnuðu leiktíð með áttunda marki sínu á sparktíðinni!

- Fabinho Tavarez spilað sinn 80. leik með Liverpool. Hann hefur skorað þrjú mörk. 

- Liverpool tapaði ekki deildarleik á Anfield á leiktíðinni. Þetta er þriðja keppnistímabilið í röð sem Liverpool tapar ekki deildarleik á heimavelli. 

- Liverpool hefur ekki áður í sögu félagsins leikið þrjár leiktíðir í röð í deildinni án þess að tapa leik. 

Hér má horfa á viðtal við Jürgen Klopp af vefsíðu BBC.

Hér má horfa á viðtal við Jordan Henderson af vefsíðu BBC.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan