| Sf. Gutt

Kóngurinn gekk á völlinn


Það er margs að minnast frá því fyrir tveimur árum þegar Liverpool varð Evrópumeistari í Madríd. Það varð uppi fótur og fit þegar Kóngurinn sjálfur varð að ganga að Wanda Metropolitano leikvanginum. 

Kenny var ásamt öðrum í rútu á leiðinni að leikvangnum þegar rútan bilaði. Eigendur Liverpool, Steven Gerrard, Gary McAllister, Paul og Kelly börn Kenny ásamt fleirum voru í rútunni. Kelly Cates, dóttir Kenny Dalglish, segir svo frá.

,,Við vorum komin til Madríd og vorum á leiðinni að leikvanginum á stórri rútu af fínustu og þægilegustu gerð. Allt var í þessu fína þar til rútan bilaði!"

Nú fór í verra því mikil umferð var að leikvanginum og það var farið að styttast í að leikurinn myndi fara að hefjast. Bílar komust ekkert áleiðis og svo fór að umferðin stöðvaðist. Einhver sagði að ekki væri um annað að ræða en að ganga. Það væri ekkert mál því vegalengdin væri ekki nema um 800 metrar. 

Annað kom þó á daginn. Vegalengdin að Wanda Metropolitano leikvanginum reyndist talsvert lengri en talið var. Fólkið var misjafnlega búið til gangs enda ekki reiknað með gönguferð. Einhverjar af konunum lentu í vandræðum því háu hælarnir vildu festast í malbikinu sem hafði bráðnað í brennheitri sólinni sem hafði skinið allan daginn. 


Allt fór þó vel. Kenny og föruneyti komust á völlinn fyrir leikinn. Líklega fannst stuðningsmönnum Liverpool, sem urðu á leið Kenny, ekki ónýtt að sjá Kónginn með meðal þegna sinna á leið sinni á leikinn. Kóngurinn og aðrir stuðningsmenn Liverpool gátu svo fagnað vel og innilega þegar flautað var til leiksloka leiks Liverpool og Tottenaham Hotspur. Sjötti Evrópubikartitill Liverpool varð veruleika!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan