| Sf. Gutt

Liverpool er besta félagslið veraldarinnar!


Liverpool er heimsmeistari félagsliða. Besta lið heimsins í fyrsta sinn. Þriðji titill árins 2019! Magnað afrek! Liverpool vann nafnbótina besta lið veraldar eftir 1:0 sigur á brasilíska liðinu Flamengo eftir framlengdan leik  á Khalifa International alþjóðaleikvanginum í Dóha. Heimsmeistarar!

Jür­gen Klopp stillti upp sterkasta liði Liverpool sem völ var á og það var ekki nokkur vafi á því að stefnt var á sigur! Liverpool byrjaði af miklum krafti og eftir 38 sekúndur sendi Trent Alexander-Arnold inn í vítateiginn á Roberto Firmino sem teygði sig í boltann en stýrði honum hátt yfir markið. Eftir fjórar mínútur fékk Mohamed Salah boltann í vítateignum og renndi honum til baka á Naby Keita en hann skaut yfir eins og Roberto. Um mínútu síðar tók Trent rispu fram og skaut vel utan vítateigs en boltinn fór rétt framhjá. Eftir sterka byrjun Liverpool komst Flamengo betur inn í leikinn. Brasilíska liðið náði þó ekki að skapa sér nein hættuleg færi. Þegar fimm mínútur voru til leikhlés hefði Liverpool átt að fá víti þegar Jordan Henderson, sem átti frábæran leik, var rifinn niður í vítateignum. Ekkert mark komið þegar flautað var til leikhlés. 

Liverpool hóf síðari hálfleik af sama krafti og þann fyrri. Eftir um tvær mínútur sendi Jordan frábæra sendingu fram á Roberto sem kom sér í skotstöðu. Hann kom boltanum framhjá Diego Alves í markinu en boltinn fór í innanverða stöngina og hættan leið hjá. Nokkrum andartökum seinna sendi Trent fyrir á Mohamed en Egyptinn skaut framhjá úr vítateignum. Á 53. mínútu ógnaði Flamengo í fyrsta sinn í leiknum að heitið gat. Gabriel Barbosa átti þá gott skot sem Alisson Becker varði vel í horn. 

Þegar leið að leikslokum herti Liverpool róðurinn og þegar fjórar mínútur voru eftir þrumaði Jordan að marki en Diego varði meistaralega með því að slá boltann yfir. Á lokamínútunni slapp Sadio Mané í gegn með Rafinha á hælunum. Skottilraun hans hans fór framhjá en dómarinn dæmdi víti og bókaði Rafinha. En svo var farið að skoða atvikið í sjónvarpi og eftir langa mæðu skipti dómarinn um skoðun. Hann dæmdi ekki neitt og tók spjaldið til baka! Stórundarlegt því það var sparkað í Sadio og þó svo hugsanlega ekki hefði átt að dæma víti því atvikið gerðist rétt við vítateigslínuna. En hann hefði þá í það minnsta átt að dæma aukaspyrnu. Alla vega var niðurstaðan umdeild. Leiknum lauk því án marka og framlenging tók við sem var ekki ákjósanlegt fyrir Liverpool svona rétt fyrir jólatörnina heima á Englandi.


Liverpool hafði lengst af haft yfirhöndina í venjulegum leiktíma á Khalifa alþjóðaleikvanginum og það hélt áfram í framlenginunni. Á 100. mínútu komst Liverpool yfir. Sókn Flamengo var brotin á bak aftur. Jordan Henderson sendi fram á Mohamed Salah og fékk boltann aftur frá Egyptanum. Fyrirliðinn gaf þá langa sendingu fram á Sadio sem lék fram að vítateignum. Þar stoppaði hann, sneri sér við og lagði boltann á Roberto Firmino sem kom æðandi fram völlinn. Hann lék inn í vítateiginn, kom varnarmanni og markmanninum úr jafnvægi með gabbhreyfingu áður en hann sparkaði boltanum í autt markið. Glæsileg skyndisókn og frábærlega gert hjá þeim sem komu að sókninni. Roberto og allir tengdir Liverpool fögnuðu ógurlega. Liverpool komið yfir og það sanngjarnt. Rétt á eftir átti Mohamed fast skot sem Diego sló yfir með tilþrifum. 

Þegar fimm mínútur voru eftir af framlengingunni tók Trent aukaspyrnu við vítateiginn en Diego varði og hélt Flamengo inni í leiknum. Þegar mínúta var eftir ógnaði Flamengo í fyrsta sinn í framlengingunni en Lincoln mokaði boltanum yfir eftir sendingu frá hægri. Rétt á eftir upphófst mikill fögnuður Liverpool innan vallar sem utan. Liverpool er besta lið veraldarinnar! 

Jordan Henderson lyfti heimsbikarnum við mikinn fögnuð og það vantaði ekkert upp á gleði fylgismanna Liverpool í Katar eða annars staðar í heiminum. Þrír stórtitlar á árinu er magnað afrek sem lengi verður í minnum haft!   

Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson; Oxlade-Chamberlain (Lallana 76. mín.), Henderson, Keita (Milner 100. mín.); Salah, Firmino (Origi 105. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Lonergan, Adrian, van den Berg, Hoever, Williams, Wijnaldum, Jones og Elliott.

Mark Liverpool:
Roberto Firmino (100. mín.).

Gul spjöld: Sadio Mané, Mohamed Salah, Roberto Firmino og James Milner.

Flamengo: Diego Alves; Rafinha , Caio, Mari, Luis; Arao, Arrascaeta (Vitino 77. mín.), Gerson (Correa dos Santos 102. mín.); Everton (Diego 82. mín.), Henrique og Barbosa. Ónotaðir varamenn: Cesar, Gabriel Batista, Rhodolfo, Rodinei, Rene, Thuler, Piris Da Motta og Reinier

Gul spjöld: 
Vitinho og Diego.

Áhorfendur á Khalifa alþjóðaleikvanginum: 45.416.

Maður leiksins:
Jordan Henderson. Fyrirliðinn var besti maður vallarins. Hann leiddi liðið og hvatti sína menn áfram allan tímann. Fyrirliðinn okkar tók við þriðja bikarnum á árinu! 

Jür­gen Klopp:
Strákarnir gáfu það ekki eftir og skiluðu sannarlega sínu. Prófraunir eru lagðar jafnt og þétt fyrir piltana. Svona er tilvernan hjá okkur. Nú um stundir standast þeir hvert prófið á fætur öðru. Það eru fleiri prófraunir eftir og við þurfum að standast þær! Ég á erfitt með að finna orð til að lýsa virðingu minni á strákunum.

Fróðleikur

- Liverpool vann Heimsmeistarakeppni félagsliða í fyrsta skipti í sögu félagsins. 

- Liverpool lék um titlinn besta lið heims í fjórða sinn. 

- Liverpool hefur nú unnið allar keppnir sem ensk félagslið geta tekið þátt í.

- Heimsmeistarakeppni félagsliða stóð út af en nú er sá titill kominn á Anfield Road í fyrsta sinn. 

- Liverpool vann þriðja stórtitlinn á árinu 2019. Fyrst Evrópubikarinn, þá Stórbikar Evrópu og nú Heimsmeistarakeppni félagsliða. 

- Liverpool er fyrsta enska liðið til að vinna þessa þrjá titla á sama árinu. 

- Roberto Firmino skoraði sjötta mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Hann skoraði tvö mörk í keppninni en hann kom Liverpool í úrslit með síðbúnu sigurmarki á Monterrey.

- Mohamed Salah fékk Gullboltann fyrir að vera kjörinn besti leikmaður Heimsmeistarakeppni félagsliða 2019.

- Hann fékk líka sérstök verðlaun aðalstyrktaraðila mótsins. 

- Roberto Firmino var kjörinn Verðmætasti leikmaður úrslitaleiksins. 

- Xherdan Shaqiri var í annað sinn í sigurliði í Heimsmeistarakeppni félagsliða. Hann var í liði Bayern München sem vann titilinn árið 2013 eftir 2:0 sigur á Raja Casablanca.

- Monterrey fékk brons eftir 4:3 vítaspyrnusigur á Al Hilal. Liðin skildu jöfn 2:2. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan