| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Landsleikjahlé er loksins búið og næsti leikur okkar manna er risaslagur gegn Manchester United á Old Trafford.

Staða liðanna í deildinni er töluvert ólík eins og flestir vita. Manchester United hafa byrjað tímabilið illa, í raun er þetta þeirra versta byrjun í úrvalsdeildinni í sögu félagsins á meðan Liverpool hafa ekki tapað leik það sem af er deildarkeppninni og unnið síðustu 17 deildarleiki í röð. Vinni Liverpool sigur á sunnudaginn jafna þeir met sem Manchester City á yfir flesta sigurleiki í röð í deildinni.

Lestur textans hér að ofan ætti að gefa mörgum stuðningsmönnum Liverpool sterka trú á sigri fyrir þennan leik en staðreyndin er sú að staða liðanna skiptir engu máli þegar þessir leikir spilast. Það þekkjum við of vel því í gegnum árin hefur staðan ákkúrat verið á hinn veginn. Fyrir Rauðu djöflanna hlýtur þetta að vera hinn fullkomni leikur til að loksins setja starkaplana á réttan stað og keyra tímabilið í gang. Gengi Liverpool hefur heldur ekki verið mjög gott á þessum velli undanfarin ár, í síðustu fimm leikjum hefur Liverpool ekki tekist að sigra, tapað þremur og gert tvö jafntefli. Heilt yfir hafa liðin mæst 27 sinnum á heimavelli United í úrvalsdeildinni og Liverpool aðeins tekist að vinna fimm leiki !

Liðin mættust síðast á Old Trafford þann 24. febrúar á þessu ári og enduðu leikar 0-0, Liverpool spiluðu illa í þessum leik og nýttu sér ekki meiðslavandræði United sem þurftu að gera þrjár skiptingar í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Auk þess spilaði Marcus Rashford meiddur í sókninni mest allan leikinn. Jürgen Klopp hefur ekki enn tekist að vinna sigur á Old Trafford sem stjóri Liverpool en eitthvað segir mér að Þjóðverjinn sé vel hungraður í að breyta þessari staðreynd sem fyrst. Það ætti að vera fullkominn undirbúningur fyrir þennan leik að horfa á leikinn frá því í febrúar og benda mönnum á að þeir voru ragir í öllum sínum aðgerðum og báru alltof mikla virðingu fyrir United.


Talandi um meiðslavandræði þá eru þau töluverð hjá heimamönnum fyrir þennan leik, alls eru 11 leikmenn skráðir meiddir og of langt mál er að telja þá alla upp hér en flestir horfa til þess að Paul Pogba og David De Gea verði fjarverandi. Það hefur þó ekki verið 100% staðfest og miðað við nýjustu fréttir þá gæti alveg eins verið að þeir verði klárir í leikinn. United gætu einnig endurheimt bakverðina Aaron Wan-Bissaka og Luke Shaw og Anthony Martial ætti sömuleiðis að vera búinn að jafna sig af sínum meiðslum. Gera má ráð fyrir því að Ole Gunnar Solskjaer rói að því öllum árum að fá læknateymi sitt til að hafa sína bestu menn klára enda veitir honum svosem ekki af, úrslit leiksins gætu mögulega haft áhrif á það hvort hann haldi sínu starfi eða ekki.

Betri fréttir berast af okkar mönnum. Alisson byrjaði að æfa að fullu í vikunni og fastlega er búist við því að hann byrji en hann hefur ekki spilað síðan í opnunarleiknum gegn Norwich í ágúst. Mohamed Salah og Joel Matip æfðu einnig í vikunni og verða að öllum líkindum í byrjunarliðinu. Á listanum eru þá bara eftir þeir Xerdan Shaqiri og verð ég að viðurkenna að ég veit ekki nákvæmlega hver staðan er á honum en eitt er þó víst að Nathaniel Clyne er áfram lengi frá.

Það er virkilega erfitt að spá fyrir um úrslit leiksins. Eins og áður sagði er staða liðanna eitthvað sem við þekkjum vel en í gegnum árin hefur hún verið á hinn veginn. Þegar United voru uppá sitt besta og mættu á Anfield var alltaf hægt að bóka það að Liverpool gæfu allt sem þeir áttu og oftar en ekki náðust góð úrslit. Undirritaður var t.d. staddur á Anfield í mars árið 2011 þegar okkar menn unnu 3-1 sigur á United (Dirk Kuyt skoraði þrennu). Kenny Dalglish hafði nýverið tekið við stjórnartaumunum eftir hörmungarnar hjá Roy Hogdson á meðan United stefndu hraðbyri að meistaraitlinum. Það er því klárt mál að United munu mæta brjálaðir til leiks og ætla sér að stöðva sigurgöngu fjendanna frá Liverpool. Hinsvegar er einnig erfitt að horfa framhjá þeirri staðreynd að þetta Liverpool lið er alveg hreint ótrúlega gott, nær að kreista fram úrslit leik eftir leik og mótherjinn er hægt og rólega brotinn á bak aftur.

Ég vonast svo sannarlega til þess að heyra vel í stuðningsmönnum Liverpool í stúkunni syngjandi We are the champions, champions of Europe og minni þessa ágætu United menn á hverjir eru besta lið Evrópu !

Spáin að þessu sinni er sú að hjartað ræður för og lokatölur verða 1-2 fyrir Liverpool. Staðan verður markalaus í hálfleik en í þeim síðari gerast hlutirnir, Liverpool skorar fyrstu tvö mörkin, United minnka muninn og setja hörku spennu í leikinn en tekst ekki að jafna metin.

Fróðleikur:

- Sadio Mané er markahæstur leikmanna Liverpool á tímabilinu með fimm deildarmörk og alls átta talsins.

- Daniel James og Marcus Rashford eru markahæstir hjá United með þrjú mörk hvor.

- Alisson Becker gæti spilað sinn 40. deildarleik fyrir Liverpool.

- Sadio Mané hefur spilað ákkúrat 100 deildarleiki fyrir félagið og skorað í þeim 50 mörk, falleg tölfræði það.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan