| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Komið er að síðasta leik fyrir landsleikjahlé. Evrópumeistararnir hafa unnið fyrstu þrjá deildarleikina og það yrði magnað að hafa fullt hús stiga þegar kemur að hléinu.

Liverpool hefur farið á kostum í fyrstu tveimur leikjunum á Anfield Road og vann svo harðsóttan sigur í Southampton. Nú er einmitt aftur komið að erfiðum útileik. Burnley gefur það aldrei eftir og það er á hreinu að Liverpool þarf að hafa fyrir að ná þremur stigum heim til Liverpool. Það er í raun aðdáunarvert að Burnely skuli halda sér í efstu deild innan um risafélög sem hafa miklu meiri fjárráð. Hvernig forráðamenn Burnely hafa staðið að sínum málum er til fyrirmyndar. 


Það verður lokað fyrir félagaskipti í dag en ekki er að búast við að neinn leikmanna Liverpool fari þó svo að leikmenn geti farið til liða á meginlandinu. Dejan Lovren hefur verið orðaður við brottför en trúlega verður hann um kyrrt. Sama má segja um Xherdan Shaqiri sem ekkert hefur komið við sönu nema þá í Skjaldarleiknum. Hann gaf ekki kost á sér í svissneska landsliðið þar sem hann sagðist vilja einbeita sér að því að æfa með Liverpool. 


Eins og áður sagði er landsleikjahlé framundan. Þess vegna er trúlegt að Jürgen Klopp tefli fram sínum sterkustu mönnum á Turf Moor og það þýðir að byrjunarliðið á móti Arsenal er líklegt til að vera valið í dag. Hann talaði um það á blaðamannafundi í gær að það myndi seinna reyna á liðshópinn og fleiri fá tækifæri en hingað til. 


Sem fyrr segir þá bíður erfiður leikur í Burnley. Hvernig sem allt verkast í leikjum gefa leikmenn Burnely aldrei tommu eftir og berjast fyrir sínu. Liverpool vann 1:3 sigur í Burnley á síðustu leiktíð og ég spái sömu úrslitum í dag. Virgil van Dijk, Mohamed Salah og Jordan Henderson skora mörkin og tryggja fullt hús stiga!

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan