| Grétar Magnússon

Sigur í fyrsta leik

Liverpool vann öruggan sigur á Norwich í fyrsta leik deildarinnar í kvöld. Lokatölur voru 4-1.

Jürgen Klopp stillti upp óbreyttu liði frá síðasta leik gegn Manchester City í Góðgerðarskildinum. Sadio Mané var í leikmannahópnum og tók sér sæti á bekknum.

Eins og við var að búast var hörku stemmning á Anfield þar sem Evrópumeistararnir var vel fagnað í fyrsta leik sínum á Anfield. Fyrsta skot leiksins kom hinsvegar frá gestunum þegar Alisson átti slæma sendingu beint á Teemu Pukki, hann lék inná teiginn og sendi á Marco Stiepermann sem skaut vel yfir markið. Tveim mínútum síðar, nánar tiltekið á 7. mínútu var boltinn hinsvegar kominn í mark gestanna. Divock Origi fékk boltann úti vinstra megin og sendi inná markteig. Þar ætlaði Grant Hanley að hreinsa frá en hitti boltann afskaplega illa. Tim Krul kom engum vörnum við í markinu og að sjálfsögðu var þessari gjöf vel fagnað !

Norwich menn létu þetta ekki mikið á sig fá og gáfust ekki upp á því að spila sinn bolta. Þeir sköpuðu stundum hættu þegar þeir sóttu en náðu ekki að reka endahnútinn á sínar sóknir. Liverpool menn sóttu að sjálfsögðu líka og pressuðu mjög hátt á vellinum. Gestirnir voru kannski fórnarlamb eigin spilamennsku þegar annað markið leit dagsins ljós. Þeim tókst ekki að hreinsa boltann almennilega frá markinu þegar Alexander-Arnold sendi inná teiginn og Firmino sendi inná Salah sem skaut hnitmiðað í fjærhornið. Markareikningur Egyptans hefur þar með formlega verið opnaður ! Skömmu síðar komst Pukki einn í gegn en Alisson varði, Finninn var reyndar rangstæður en þarna hugsuðu sennilega margir að varnarleikur Liverpool manna hafi fram til þessa verið helst til of götóttur.

Þriðja markið kom á 28. mínútu og var það frekar einföld uppskrift. Salah tók hornspyrnu frá vinstri og þar var van Dijk mættur á markteignum til að skalla boltann í markið. Slök varnarvinna hjá Norwich þarna en van Dijk er jú reyndar ótrúlega öflugur í loftinu. Þrem mínútum síðar varði svo Krul mjög vel þegar Firmino gerði vel í teignum, lagði boltann snilldarlega fyrir sig og þrumaði að marki en Krul var snöggur til og varði. Skömmu síðar meiddist Alisson þegar hann sparkaði frá marki, svo virtist sem hann hafi snúið sig á ökkla og hann gat ekki haldið leik áfram. Spánverjinn Adrián kom inná og er líklegt að hann hafi ekki búist við því að fá tækifæri til að spila svo snemma fyrir félagið. Okkar menn voru ekki hættir í markaskorun fyrri hálfleiks. Alexander-Arnold sendi frábæra sendingu inná teiginn þar sem Origi mætti og skallaði boltann framhjá Krul. Virkilega vel gert hjá þeim báðum og allt leit út fyrir nýliða slátrun á Anfield. Staðan í hálfleik 4-0.


Ekki var langt liðið á síðari hálfleik þegar staðan hefði átt að vera 5-0. Origi lék inná teiginn vinstra megin og boltinn barst til Henderson sem skaut að marki en Krul varði og þaðan fór boltinn í slána. Alexander-Arnold sendi svo fyrir markið þar sem Firmino virist eiga auðvelt með að setja boltann í markið en hann misreiknaði sig eitthvað og boltinn fór framhjá markinu. Norwich menn færðu sig framar á völlinn á meðan okkar menn virtust slaka aðeins á enda forystan örugg. Á 63. mínútu þrumaði Leitner boltanum í samskeitin með skoti úr teignum og mínútu síðar höfðu gestirnir minnkað muninn. Títtnefndur Pukki skoraði þá eftir sendingu inná teiginn. Stuðningsmenn gestanna fögnuðu gríðarlega þessu marki eins og gefur að skilja.

Það sem gerðist eftir þetta er kannski ekki svo ýkja mikið og óþarfi að nefna það allt hér, Sadio Mané og James Milner komu inná og var vel fagnað en bæði líð náðu ekki að bæta við mörkum og lokatölur því 4-1 sigur okkar manna og vonandi gefur þetta tóninn fyrir það sem koma skal á tímabilinu.

Liverpool: Alisson (Adrián, 39. mín.), Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk, Robertson, Fabinho, Henderson, Wijnaldum, Origi (Mané, 74. mín.), Salah, Firmino (Milner, 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Matip, Keita, Oxlade-Chamberlain, Shaqiri.

Mörk Liverpool: Sjálfsmark (7. mín.), Salah (19. mín.), van Dijk (28. mín.) og Origi (42. mín.).

Norwich: Krul, Aarons, Hanley, Godfrey, Lewis, McLean, Trybull (Hernández, 70. mín.), Buendía, Stiepermann (Leitner, 58. mín.), Cantwell, Pukki (Drmic, 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Fährmann, Byram, Roberts, Vrancic.

Mark Norwich: Pukki (64. mín.).

Gul spjöld: Buendía og Leitner.

Áhorfendur á Anfield: 53.333.

Maður leiksins: Roberto Firmino. Með örlítilli heppni hefði Brasilíumaðurinn getað skorað í kvöld en framlag hans til liðsins var frábært og magnað að sjá hversu vel hann heldur boltanum og fíflar varnarmenn með skemmtilegum gabbhreyfingum og frábærum snertingum.

Jürgen Klopp: ,,Í 60 mínútur vorum við mjög beittir, eftir það þurftum við að stjórna leiknum aðeins meira. Norwich fá alla mína virðingu, þeir voru flottir og nutu þess að spila fótbolta. Í byrjun seinni hálfleiks hefðum við getað skorað fimmta og sjötta markið en svo skoruðu Norwich. Eftir þetta var leikurinn aldrei í hættu en við þurftum að hafa fyrir því að halda stöðunni óbreyttri."TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan