| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Það voru vonbrigði í loftinu í hraglandanum á Anfield á sunnudaginn eftir að leik Liverpool og Everton hafði lokið með jafntefli. Nú er að komast aftur á sigurbraut. Mótherjarnir koma sunnan úr Miðlöndunum og það á að vera lag að leggja þá að velli. West Bromwich Albion er í fallsæti og það er ekki annað boðlegt en að vinna sigur á þeim. Þetta snýst ekki um hroka heldur verður að gera þá kröfu að Liverpool vinni lið sem er við botn deildarinnar. Tony Pulis missti starf sitt á dögunum og Alan Pardew tók við. Vonandi fer áhrifa hans ekki að gæta strax ef hann nær þá að koma liðinu á skrið. Eins og fyrr segir þá voru mikil vonbrgði ríkjandi hjá stuðningsmönnum Liverpool eftir leikinn á móti Everton. Liverpool hafði öll völd á vellinum frá upphafi til enda en það dugði ekki til. Eftir leikinn var Jürgen Klopp gangrýndur fyrir að stilla ekki Philippe Coutinho og jafnvel Roberto Firmino upp í byrjunarliðinu. Dejan Lovren var líka gagnrýndur fyrir að gefa kost á vítaspyrnudómi. Ég hefði ekki gagnýnt þessa tvo mest heldur Sadio Mané sem ákvað að skjóta sjálfur frekar en að senda boltann á einn þriggja félaga sinna sem voru allir fyrir opnu marki. Mark á þeim tímapunkti hefði komið Liverpool í 2:0 og svo til innsiglað sigurinn. En það tjáir ekki að fást um það. 


Nú er bara að horfa til næsta leiks. Það er nokkuð áhyggjuefni að Mohamed Salah gæti misst af leiknum en hann á við einhver meiðsli að stríða og meðal annars spiluðu þau inn í að hann var tekinn út af á móti Everton. Vonandi verður þessi magnaði framherji frá Egyptalandi til taks. Framganga hans hingað til á leiktíðinni er með ólíkindum og það kom ekki á óvart að hann skyldi vera kjörinn besti leikmaður Afríku núna í vikunni. 

Ég spái því að Liverpool geri ekki nein mistök á móti W.B.A. og vinni 3:1 sigur. Mörk frá þeim Sadio Mané, Roberto Firmino og Dominic Solanke koma Liverpool aftur í gang. Dominic skorar sitt fyrsta mark fyrir Liverpool!

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan