| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool heimsækir nágranna sína í Manchester City á laugardaginn. Frá því að Jürgen Klopp tók við Liverpool hefur liðið aðeins tapað 2 stigum í 4 viðureignum gegn City.

Það er freistandi að minnast ekki á tap Liverpool fyrir City í undanúrslitum deildabikarsins á Wembley í febrúar 2016, en því miður er ekkert auðvelt að gleyma því. En hvað um það, í Úrvalsdeildinni hefur Liverpool allavega ekki tapað fyrir City frá því að Klopp tók við og vonandi förum við ekki að taka upp á því um helgina. 

Manchester City er auðvitað firnasterkt lið og lítur óþægilega vel út nú í upphafi leiktíðar. Guardiola virðist vera búinn að átta sig á enska boltanum og leikmannahópurinn er náttúrlega alveg fáránlega öflugur. En við skulum ekki gleyma því að Liverpool liðið lítur líka mjög vel út þessa dagana og þegar við bætist að okkar mönnum gengur yfirleitt vel á móti stóru liðunum er engin sérstök ástæða til að vera svartsýnn. 

Ég nenni ekkert að fara sérstaklega yfir City liðið, þar eru 1-2 heimsklassaleikmenn í hverri stöðu liggur mér við að segja og þarf kannski ekkert að ræða það neitt frekar. Gundogan er meiddur og verður örugglega ekki með á laugardaginn en að öðru leyti sýnist mér að allir þeirra menn séu heilir. Company hefur verið meiddur en það er búist við því að hann verði orðinn klár um helgina. 

Í herbúðum Liverpool er ástandið svosem óvenju gott miðað við oft áður, það eru allir heilir nema Adam Lallana og Nathaniel Clyne. Og reyndar Bogdan, en það skiptir engu máli. Í vikunni var Meistaradeildarhópurinn tilkynntur og það vakti athygli að Clyne var ekki þar, sem bendir til þess að hann verði talsvert lengur frá en upphaflega var áætlað. Lallana var hinsvegar í hópnum, sem gæti þýtt að hann yrði kominn á ferðina fyrr en áætlað var. 

Það er lang líklegast að Klopp stilli upp sama liði og gjörsigraði Arsenal í síðasta leik. Væntanlega verður Mignolet reyndar í markinu aftur og svo er kannski eina spurningin er hvort Joe Gomes verður hægri bakvörður eins og í þeim leik eða Alexander-Arnold, sem stóð sig vel í leikjunum þar á undan. Nú svo veit auðvitað enginn hvað verður með Coutinho, eða hvort nýjasti leikmaðurinn í vopnabúri rauða hersins, Alex-Oxlade Chamberlain, kemur eitthvað við sögu. 
Það er heilmikið prógramm framundan hjá Liverpool, langþráð riðlakeppni Meistaradeildarinnar er næst á dagskrá á eftir City leiknum, þegar Sevilla kemur í heimsókn á Anfield. Svo er það deildabikarinn síðar í mánuðinum og ferðalag til Rússlands í Meistaradeildinni o.s.frv. Það verður að koma í ljós hvort það voru mistök hjá Liverpool að styrkja ekki hópinn enn frekar fyrir aukið álag sem fylgir Evrópukeppni, en vonandi sleppur þetta allt til, a.m.k. fram í næsta glugga. 

Það er mikið talað um að þá muni Liverpool reyna að ná Van Dijk frá Southampton. Svo má auðvitað velta því fyrir sér hver ákvað að hann væri eini miðvörðurinn sem er í boði fyrir liðið. Það eru væntanlega einhverjir sem hafa talsvert meiri vit á málum en ég, en mér finnst einhvernveginn hæpið að leikmaður Southampton og hollenska landsliðsins (sem bæði eru í besta falli miðlungslið) sé bjargvætturinn Laufey holdi klæddur. En hvað veit ég? Ef hann kemur vona ég allavega að hann verði frábær.



Hvernig sem fer held ég að það sé nokkuð öruggt að það verður boðið upp á bráðskemmtilegan leik á Etihad á laugardaginn, enda sóknartilburðir beggja liða oft til algerrar fyrirmyndar. Vonandi heldur okkar vörn örlítið betur en vörn heimamanna og nær að stuðla að enn einum góðum úrslitum gegn sterku liði City. 

Ég ætla að leyfa mér að spá 3-2 sigri í hörkuleik þar sem Wijnaldum, Firmino og Sturridge setja mörkin og Mignolet ver víti.

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan