| Sf. Gutt

Danny Ings úr leik út leiktíðina


Þær slæmu fréttir bárust í dag að Danny Ings hefði meiðst á nýjan leik. Enski framherjinn spilaði í annað sinn með aðalliði Liverpool á leiktíðinni á móti Tottenham Hotspur í Deildarbikarnum í síðustu viku. Hann kom inn á sem varamaður og lék af miklum krafti. Hann lenti í návígi við leikmann Spurs og varð fyrir hnjaski. Í fyrstu var það ekki talið alvarlegt en nú er komið í ljós að hann meiddist illa á liðþófa. Danny þarf að fara í aðgerð og spilar ekki meira á þessu keppnistímabili.


Þetta er reiðarslag fyrir Danny sem kom til leiks aftur í vor eftir að hafa slitið krossbönd síðasta haust þegar hann var farinn að láta til sín taka í aðalliði Liverpool. Aðgerð og löng endurhæfing bíða Danny og það verður ekki fyrr en næsta sumar sem hann getur farið að spila knattspyrnu á nýjan leik. Liverpool keypti Danny frá Burnley fyrir síðustu leiktíð og hann hefur spilað 11 leiki með Liverpool og skorað þrjú mörk. 


Vonandi nær Danny Ings sér aftur á strik en ljóst er að þessi meiðsli eru gríðarlegt áfall fyrir hann og eins er verulega slæmt að missa hann úr leikmannahópnum. Þó svo að Danny hafi aðeins spilað tvisvar á leiktíðinni þá munar um alla. Mestu skiptir þó að Danny nái sér að fullu. Tíminn leiðir það í ljós!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan