| Heimir Eyvindarson

Mögnuð skemmtun á Selhurst Park


Liverpool heimsótti Crystal Palace á Selhurst Park seinnipartinn í dag. Eftir flugeldasýningu í fyrri hálfleik bættist eitt mark við í þeim seinni og niðurstaðan 4-2 sigur Liverpool. 

Það kom ekkert á óvart við liðsuppstillingu Jurgen Klopp í dag. Milner hefur verið að glíma við veikindi í vikunni og þessvegna kom Alberto Moreno inn í vinstri bakvörðinn. Þá tók Emre Can stöðu Wijnaldum á miðjunni en að öðru leyti var liðsuppstillingin sú sama og í flestum alvöru leikjum á leiktíðinni og greinilegt að Klopp er kominn nálægt því að finna sitt sterkasta lið.

Leikurinn var sem áður segir hrein og klár flugeldasýning í fyrri hálfleik. Strax eftir 5 mínútur hefði Adam Lallana getað skorað en hann var heldur lengi að athafna sig inni í teignum. 

Fyrsta markið kom eftir 16 mínútur. Það skoraði Emre Can eftir góða sókn okkar manna. Aðeins tveimur mínútum síðar var Palace búið að jafna metin og það mark var einstaklega klaufalegt af hálfu Liverpool. Dejan Lovren átti þá misheppnaða sendingu úr vörninni og McArthur skallaði af vítateigslínunni yfir Karius sem kom hlaupandi út með hendur niður með síðum, líklega hræddur um að Andre Marriner myndi dæma óbeina aukaspyrnu ef hann tæki boltann með höndum. Afskaplega slappt mark og staðan 1-1.

Á 21. mínútu bætti Lovren fyrir mistökin þegar hann skallaði boltann í net heimamanna eftir hornspyrnu frá Coutinho. Flott mark og Króatanum greinilega létt.

Liverpool var á blússandi ferð allan fyrri hálfleikinn og skapaði nokkur frábær færi, Moreno skaut í stöng og Mane og Lallana áttu fínar tilraunir áður en heimamenn jöfnuðu metin úr annarri sókn sinni í leiknum! Benteke vann skallaeinvígi, boltinn barst út til hægri þar sem Zaha sendi hann á kollinn á McArthur sem stangaði boltann í markið. Annað mark McArthur í leiknum, en hann hefur aldrei áður skorað tvö mörk í leik. Ekki nægilega góður varnarleikur af hálfu Liverpool og þrátt fyrir mikla yfirburði var staðan jöfn. Ferlega svekkjandi.

Liverpool hélt áfram að sækja og rétt eftir jöfnunarmark heimamanna átti Coutinho skalla sem Mandanda í marki Palace varði frábærlega í stöng. Boltinn hafði reyndar fór fyrst viðkomu í hönd varnarmanns Palace, en það fór fram hjá dómaratríóinu.

Á 44. mínútu skoraði hinn miðvörðurinn svo flott mark með skalla eftir hornspyrnu Coutinho. Matip var dauðafrír í teignum og gat stangað boltann af miklu afli í netið. Pardew hefur örugglega látið varnarmenn sína heyra það í búningsklefanum í hálfleik. Ömurlegur varnarleikur hjá Kelly og félögum.

Staðan 2-3 í hálfleik í alveg hreint ótrúlega skemmtilegum leik fyrir alla áhorfendur. Liverpool miklu betra liðið á vellinum, en munurinn samt sem áður einungis eitt mark.

Crystal Palace hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti og á 49. mínútu fékk Benteke gott færi en Karius varði vel. Á næstu mínútum var leikurinn opinn í báða enda en Palace var oft óþægilega ógnandi. Eftir 25 mínútna leik í seinni hálfleik voru heimamenn þriisvar búnir að heimta víti og má kannski segja að Liverpool hafi verið heppið að Marriner skyldi ekki vera á þeim buxunum í dag. Kannski er virðing dómara fyrir okkar mönnum orðin meiri en áður. Hvað veit maður?

Liverpool átti líka sín móment og Mané fékk t.d. öðru sinni í leiknum mjög gott tækifæri til að skora, en Mandanda sá við honum.

Á 71. mínútu kom síðan markið sem gerði út um leikinn. Henderson átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Palace, á Firmino sem vippaði boltanum yfir Mandanda. Glæsilega að verki staðið hjá okkar mönnum og staðan orðin 2-4.

Fáeinum andartökum eftir markið átti Zaha gott skot að marki Liverpool, en Karius sá við honum. Meira sást eiginelag ekki til heimamanna í leiknum og okkar menn stóðu uppi sem sigurvegarar. Sanngjarn sigur og leikurinn á tíðum heilmikil skemmtun. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Arsenal og Manchester City unnu einnig sína leiki í dag þannig að staðan á toppnum breytist ekki um þessa helgi. Frábær byrjun í deildinni hjá Liverpool og með þessu áframhaldi getum við bráðum farið að láta okkur dreyma.

YNWA!

Liverpool: Karius, Clyne, Lovren, Matip, Moreno, Can, Henderson, Lallana (Wijnaldum á 75. mín.), Coutinho (Origi á 89. mín.), Firmino og Mané (Klavan á 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Lucas, Randall og Sturridge.

Mörk Liverpool: Can á 16. mín., Lovren á 21. mín., Matip á 44. mín. og Firmino á 71. mín.

Gul spjöld: Firmino og Can.

Crystal Palace: Mandanda, Ward, Tomkins, Kelly, Dann, Cabaye, McArthur (Campbell á 86. mín.), Ledley (Puncheon á 76. mín.), Lee (Townsend á 64. mín.), Zaha, Benteke. Ónotaðir varamenn: Hennessey, Delaney, Fryers, Flamini.

Mörk Crystal Palace:
Mc Arthur á 18. og 33. mín.

Gult spjald:
Cabaye.

Áhorfendur á Selhurst Park: 25.628

Maður leiksins: Mér fannst Brassarnir bestir í dag rétt eins og um síðustu helgi. Þá valdi ég Firmino mann leiksins, en núna vel ég Coutinho. Gríðarlega skapandi leikmaður og alltaf hætta þegar hann fær boltann. 

Jurgen Klopp:
,,Ég var í raun ekki ánægður með fyrri hálfleikinn hjá okkur. Við spiluðum góðan sóknarleik og sköpuðum fullt af færum en svo hleyptum við þeim inn í leikinn með klaufagangi. Það var ekki nógu gott. Ég er ekkert endilega óánægður með klaufaskapinn sjálfan heldur hvað við vorum linir í pressunni í báðum mörkunum. En við unnum leikinn og erum komnir með 23 stig. Það er mjög jákvætt."

Fróðleikur:

-Þetta var í 15. sinn sem Liverpool og Crystal Palace mætast í Úrvalsdeild. Í þessum 15 leikjum hafa liðin skorað heil 56 mörk, eða að meðaltali 3,73 mörk í leik.

-Nathaniel Clyne lék 137 leiki fyrir Crystal Palace á sínum tíma, áður en hann gekk til liðs við Southampton og síðan Liverpool.

-Joel Matip skoraði í dag sitt fyrsta mark fyrir Liverpool.

-Liverpool er nú ósigrað í 8 leikjum í röð í deildinni. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan