| Heimir Eyvindarson

Rodgers hefur engar áhyggjur

Brendan Rodgers hefur litlar áhyggjur af gengi Liverpool liðsins það sem af er tímabilinu. Hann veit að liðið verður betra eftir því sem líður á leiktíðina.

„Ég er nokkuð rólegur. Þetta var svipað í fyrra. Við byrjuðum rólega en unnum okkur upp hægt og bítandi. Gleymum því ekki að ef Phil Jagielka hefði ekki skorað þetta fáránlega flotta mark gegn okkur í uppbótartíma þá værum við í topp 4. Á þessum tímapunkti snúast hlutirnir hjá okkur bara um að bæta okkar leik og einbeita okkur að því sem við getum gert betur."

„Það er ekkert neyðarástand í gangi hjá okkur. Við vitum það vel að liðið er í framför. Við verðum betri eftir því sem líður á leiktíðina. Það er klárt mál. Við misstum heimsklassamann úr okkar röðum í sumar og fengum marga nýja menn í staðinn. Það tekur tíma að fínpússa liðið, það er eðlilegt."

„Það eru allir hérna ákveðnir í því að gera betur og leikmennirnir leggja sig alla fram á hverri einustu æfingu. Það er ekki hægt annað en að hrósa þeim fyrir sitt vinnuframlag. Ég veit að öll sú vinna er um það bil að fara að borga sig."

Adam Lallana er einn af nýju mönnunum hjá Liverpool og hann hefur verið seinn í gang, enda að jafna sig eftir meiðsli sem hann varð fyrir á undirbúningstímabilinu. Fyrir landsleikjahléið var ekki annað að sjá en að hann væri að komast í sitt besta form og kappinn skoraði t.d. sitt fyrsta mark fyrir félagið í heimaleiknum gegn WBA á dögunum. Rodgers er afar ánægður með framfarirnar sem Lallana hefur sýnt.

„Lallana hefur sýnt það á undanförnum árum með Southampton að hann er gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður. Ein af ástæðunum fyrir því að við keyptum hann, fyrir utan augljósa knattspyrnuhæfileika hans, var sú að við töldum mikilvægt að fá til okkar einhverja leikmenn sem væru búnir að sanna sig í Úrvalsdeildinni og þyrftu ekki tíma til þess að aðlaga sig að hraðanum og kraftinum í deildinni."

„Við vorum óheppnir með að hann skyldi meiðast í sumar en nú er hann kominn í gang og hann hefur svo sannarlega sýnt hvers hann er megnugur í síðustu tveimur leikjum."

„Ég fylgist grannt með honum á hverri einustu æfingu og ég sé að hann á ennþá meira inni. Hann á eftir að verða frábær leikmaður hjá okkur. Það verður gaman að fylgjast með honum þegar fer að líða á leiktíðina," segir Rodgers að lokum, fullur sjálfstrausts að vanda. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan