| Sf. Gutt

Gleymi þessum leik aldrei!

Martin Skrtel segist aldrei munu gleyma sigrinum magnaða á Old Trafford. Hann segir mikinn fögnuð leikmanna Liverpool yfir mörkum endurspegla góðan liðsanda.

,,Þetta var yndislegur leikur og ég mun aldrei gleyma honum. Við vorum sérstaklega góðir og leikur okkar var svo til fullkominn. Það er aldrei auðvelt að vinna þarna svo ég er virkilega ánægður. Við skoruðum þrjú mörk og hefðum jafnvel getað skorað fleiri. Við vorum mikið með boltann og stjórnuðum leiknum og því getum við sagt í þetta sinn að við séum mjög ánægðir. Ég er líka kátur með að við skyldum halda hreinu. Nú verðum við að sýna framfarir okkar þegar við mætum Cardiff."

Það hefur nokkuð verið tekið eftir miklum fögnuði leikmanna Liverpool á leiktíðinni þegar liðið hefur skorað. Gleðiefnin hafa verið mörg enda hefur Liverpool raðað inn mörkum. Martin, sem hefur fagnað ógurlega svo eftir hefur verið tekið í nokkur skipti, segir gleðina merki um góðan liðsanda og mikla samheldni.

,,Maður gengur bara af göflunum eftir svona mörk eins og sást á þegar við skoruðum á móti Everton og svo núna gegn United. Ég hef fagnað svona áður og líka núna aftur. Ég er ánægður mað að stuðningsmennirnir hafa haft gaman af. Þetta segir bara sína sögu. Það sjá allir að við fögnum allir saman sem einn. Við erum ánægðir með að skora mörk og vinna leiki."

Það er vonandi að leikmenn og stuðningsmenn Liverpool eigi eftir að fagna mörgum mörkum það sem eftir er af leiktíðinni!


Áfram svo að skora og fagna!!!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan