| Heimir Eyvindarson

Magnaður heiðursgestur!

Heiðursgestur árshátíðar Liverpool klúbbsins á Íslandi er enginn smá nagli. Við höfum gefið nokkrar vísbendingar hér á síðunni um það hver kappinn er, en nú er komið að því að ljóstra upp leyndarmálinu.

Í gær birtust eftirfarandi vísbendingar um þennan ástsæla leikmann:

Viðurnefni þessa leikmanns tengist því að vera æðri konungi eða einhver sem ræður yfirleitt yfir ríki sem inniheldur mörg áður sjálfstæð ríki eða svæði sem eru landfræðilega og menningarlega aðgreind.

Heiðursgesturinn spilaði með Liverpool á síðustu öld og fram á þessa!

Heiðursgesturinn hóf knattspyrnuferil sinn árið 1989.

Einhverjir hafa eflaust áttað sig á því að heiðursgesturinn er enginn annar en snillingurinn Dietmar Hamann.


Didi Hamann, eða Dietmar Hamann eins og hann heitir réttu nafni, hóf knattspyrnuferil sinn hjá Bayern Munchen 16 ára gamall árið 1989. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins árið 1993. Hann sló fyrst almennilega í gegn leiktíðina 1996-1997, en þá vann hann sér fast sæti í byrjunarliði Bayern, sem varð þýskalandsmeistari þetta ár, og komst í þýzka landsliðið.
 
Eftir að hafa staðið sig ágætlega með Þjóðverjum á HM 1998 var Hamann keyptur til Newcastle. Sá sem keypti hann var enginn annar en Kenny Dalglish. Í júlí 1999 gekk hann til liðs við Liverpool, sem þá var stjórnað af Gerard Houllier. 

Hamann varð fljótlega kjölfestan í liði Liverpool og var einn mikilvægasti leikmaður liðsins allt þar til hann gekk til liðs við Manchester City í júní 2006. Við munum öll hversu dýrmæt innkoma hans í hálfleik í Istanbul var fyrir Liverpool, en þá kom hann inn og batt saman vörn og miðju á augabragði með útsjónarsemi sinni, yfirferð og baráttugleði.

Á ferli sínum með Liverpool vann hann FA bikarinn tvisvar sinnum (2001 og 2006), Deildabikarinn tvisvar (2001 og 2003) UEFA bikarinn (2001) og Meistaradeild Evrópu (2005). Hann á að baki 59 landsleiki fyrir Þýskaland.
 


Það verður magnað fyrir aðdáendur Liverpool að fá að hitta þennan mikla meistara, sem svo margoft hefur lýst yfir ást sinni á félaginu okkar.

Eins og áður hefur komið fram verður árshátíð Liverpoolklúbbsins á Íslandi haldin á Grand Hótel laugardaginn 13. apríl og ekki þarf að minna fólk á að taka daginn frá því kvöldið verður magnað.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan