| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Það má kannski segja að tvö jójólið mætist á morgun, þegar lærisveinar Roberto Martinez í Wigan mæta á Anfield. Bæði lið eru nokkurn veginn óútreiknanleg.


Liðin eru hlið við hlið í deildinni. Liverpool í 13. sæti með 12 stig, Wigan í því 14. með 11 stig. Byrjun Liverpool í deildinni undir stjórn Brendan Rodgers hefur ekki verið nægilega góð og nú er svo komið að liðið er nær fallsæti en Meistaradeildarsæti. Það er af sem áður var.

Það er ekki síst heimavallarformið sem er öðruvísi en við sem munum gullnu tímana eigum að venjast. Liverpool hefur einungis unnið einn sigur á Anfield það sem af er þessu tímabili. 1-0 gegn Reading. Sex stig af átján mögulegum á þessum stórkostlega heimavelli, þar sem mögnuðustu stemningu í deildinni er jafnan að finna, er einfaldlega alls ekki nógu gott. Einungis sex heimaleikir unnust á síðasta tímabili og fátt sem bendir til þess að tölfræði þessa tímabils ætli að verða betri.

Stuðningsmenn eru eðlilega orðnir langþreyttir eftir sigri á Anfield og hugsa sér væntanlega margir gott til glóðarinnar þegar litla liðið frá Rugby bænum kemur í heimsókn á morgun. Wigan er þó sýnd veiði en ekki gefin. Staðreyndin er sú að ekkert lið í Úrvalsdeildinni getur státað af jafnlangri taplausri hrinu gegn Liverpool í deildinni, en okkar mönnum hefur ekki tekist að leggja Wigan að velli í síðustu fimm deildarleikjum. Síðasti sigur Liverpool gegn Wigan í deildinni kom í desember 2009! Ótrúlegt en satt.

Þrátt fyrir dapurt gengi virðist Brendan Rodgers njóta trausts eigenda Liverpool og allflestra stuðningsmanna. Það má í því sambandi minna á að byrjun hans með liðið er enn verri en hörmungarbyrjun Roy Hodgson, sem uppskar baul og formælingar frá annars dagfarsprúðum stuðningsmönnum okkar ástsæla félags.

Brendan Rodgers fær líka fullan stuðning frá mér. Liðið spilar á köflum fínan fótbolta og það er ákveðin framtíðarsýn í gangi. Ólíkt því sem var t.d. þegar Roy Hodgson var með liðið. Hópurinn er vissulega ansi þunnskipaður og talsvert veikari en hann var vorið 2009 þegar liðið náði 2. sæti í deildinni. Alonso, Mascherano, Hyypiä, Torres og fleiri góðir allir horfnir á braut og lítið komið í staðinn. Auk þess eru Gerrard, Carragher og jafnvel Reina ekki sömu leikmenn og þeir voru þá. Eini toppleikmaðurinn í liðinu þessa dagana er Luis Suarez.
Ég hef þó fulla trú á því að Rodgers takist að búa til gott lið úr þeim mannskap sem hann hefur í höndunum. Tala nú ekki um ef hann fær 1-2 sóknarsinnaða menn í janúar. En það er þolinmæðisverk og við stuðningsmennirnir verðum að taka þátt í því. Rodgers hefur verið óhræddur að gefa ungu strákunum tækifæri og það mun bara gera þeim og liðinu gott þegar litið er til framtíðar. Shelvey, Sterling, Suso, Wisdom eiga vonandi allir eftir að ylja okkur um langa framtíð. Gleymum því ekki heldur að Joe Allen er bara 22 ára og Suarez bara 25. Framtíðin er björt ef við nennum að bíða eftir henni.

Roberto Martinez mætir með sitt undarlega fótboltalið á Anfield á morgun. Hann hefur náð ótrúlega góðum árangri með þetta litla lið frá rugbybænum Wigan, þar sem áhugi á knattspyrnu virðist ekki allt of mikill, og var eins og menn muna sterklega orðaður við stjórastöðuna á Anfield í sumar. Wigan vann góðan sigur á Tottenham um daginn, en tapaði heima gegn WBA í síðasta leik þannig að það er álíka mikið á lærisveina Martinez að treysta og okkar eigið lið.

Eins og áður segir hefur Wigan haft gott tak á Liverpool undanfarin misseri. Þar fyrir utan hefur Liverpool oftar en ekki átt í heljarbasli með „minni liðin" í deildinni, sem vegna okkar stöðu eru sett innan gæsalappa að þessu sinni.

Þegar dapurt heimavallarform Liverpool er tekið með í reikninginn og sú staðreynd að Liverpool hefur einungis skorað 5 mörk á síðustu 9 klukkutímum sem liðið hefur leikið á Anfield er lítið sem gefur tilefni til bjartsýni á morgun.

Ég ítreka það að lokum að ég hef fulla trú á því að Brendan Rodgers sé rétti maðurinn fyrir Liverpool. Ég er alveg viss um að gæfan á eftir að snúast okkur í hag og ég held enn í veika von um sæti í Meistaradeildinni að ári. En það breytir því ekki að ég held að lukkan láti ekki sjá sig alveg strax á Anfield. Spáin fyrir morgundaginn er því 0-1 tap. En mikið rosalega vona ég að ég hafi kolrangt fyrir mér.

YNWA

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan