| Sf. Gutt

Michael langaði til Liverpool

Michael Owen er nú leikmaður Stoke City en hann mun hafa haft töluverðan hug á að snúa aftur heim til Liverpool áður en hann samdi við Stoke. Michael lét hafa eftir sér um helgina í þætti á Sky að hann hafi sett sig í samband við Liverpool með þá hugmynd að hann myndi snúa aftur heim.  

Endurkoma heim til Liverpool fyrir Michael var þó ekki í boði að þessu sinni. Brendan Rodgers hafði einfaldlega ekki nokkurn einasta áhuga á að fá Michael Owen til liðs við sig og það þó fátt sé um sóknarmenn í liði Liverpool! 
 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Michael hefur hug á endurkomu til Liverpool. Hann á að hafa reynt fyrir sér með endurkomu þegar hann fór frá Newcastle United sumarið 2009 en þá vildi Rafael Benítez ekki sjá hann. Michael lét sig þá hafa það að semja við Manchester United. Í því ljósi er nokkuð merkilegt að Michael skyldi detta í huga að hann ætti endurkvæmt til Liverpool. Það hefur svo sem ýmsilegt gerst í óvæntum endurkomum og sölum í knattspyrnusögunni en margir töldu að Michael væri búinn að brenna allar brýr að baki sér hjá Liverpool með því að leika með Manchester United.  

Það var á hinn bóginn í boði fyrir Michael Owen að koma aftur til Liverpool þegar hann fór frá Real Madrid sumarið 2005 ári eftir að hann fór frá Liverpool. Forráðamenn Liverpool voru þá tilbúnir að bjóða honum samning en Michael valdi að ganga til liðs við Newcastle United. Sú ákvörðun hans mun hafa ráðið því að Rafael Benítez vildi ekkert með hann hafa framar.

Michael Owen lék 297 leiki með Liverpool og skoraði 158 mörk frá 1997 til 2004. Hann skoraði 40 mörk í 89 landsleikjum og var kosinn Knattspyrnumaður ársins í Evrópu árið 2001. Michael er eini leikmaður Liverpool hingað til að hljóta þá nafnbót.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan