| Heimir Eyvindarson

Frekar slappur endir á slöppu tímabili

Leikmenn Liverpool virkuðu andlausir í dag gegn spútnikliði Swansea. Lokatölur urðu 1-0 fyrir heimamenn í jöfnum en frekar tilþrifalitlum leik.

Kenny Dalglish gerði tvær breytingar á liðinu frá sigurleiknum gegn Chelsea á þriðjudaginn. Martin Skrtel er að ná sér eftir nefaðgerð og fór því ekki með til Wales í dag og Pepe Reina lá lasinn heima. Í þeirra stað komu Martin Kelly og Doni. Jamie Carragher var fyrirliði í fjarveru Steven Gerrard, sem er enn frá vegna meiðsla.

Leikurinn fór frekar rólega af stað. Heimamenn í Swansea voru þó mun meira með boltann, en héldu sig að mestu á miðsvæði vallarins og þó nokkuð á sínum eigin vallarhelmingi. Á 9. mínútu skapaðist stórhætta þegar Shelvey missti boltann kæruleysislega á miðjum vellinum og Joe Allen og Danny Graham voru skyndilega komnir einir á móti Doni og Carragher. Sem betur fer náði sending Allen ekki til Graham og boltinn sigldi framhjá.

Eftir fimmtán mínútna leik kom fyrsta markskot Liverpool, en þá skaut Maxi framhjá af 20 metra færi.

Fimm mínútum síðar gerði Glen Johnson sig sekan um kæruleysisleg mistök og Gylfi Sigurðsson var ekki lengi að renna boltanum á Graham, en til allrar lukku var Graham dæmdur rangstæður.

Þremur mínútum síðar var Gylfi nálægt því að skora eftir að Agger hafði gefið heimamönnum ódýra hornspyrnu. Á 33. mínútu var Gylfi aftur nálægt því að skora, en þá skaut hann mjög góðu skoti úr aukaspyrnu rétt utan teigs. Skotið var fast og stefndi neðst í hornið, en Doni bjargaði mjög vel.

Á 36. mínútu heimtuðu okkar menn vítaspyrnu þegar boltinn virtist fara í hönd varnarmanns í vítateig Swansea. Dómarinn var ekki á sama máli og lét leikinn halda áfram. Á 44. mínútu komst Dyer einn inn fyrir eftir snarpa sókn Swansea manna, en Doni varði mjög vel.

Í lok fyrri hálfleiks kom til undarlegra átaka milli Williams og Carroll, en Williams var heldur aðgangsharður við Carroll úti á miðjum velli og hélt áfram að ýta í hann eftir að dómarinn hafði dæmt hann brotlegan. Það fór heldur illa í okkar mann og úr urðu hálf kjánaleg áflog. Til allrar hamingju ákvað Mark Halsey dómari að láta hávaðann í áhorfendum á Liberty Stadium hafa áhrif á sig og lét nægja að gefa báðum leikmönnum gult spjald.

Liðin héldu því til búningsherbergja með jafna stöðu og jafn marga menn í báðum liðum.

Síðari hálfleikur þróaðist nokkurn veginn eins og sá fyrri. Heimamenn voru meira með boltann og virkuðu frískari, án þess þó að vera með neina yfirburði.

Á 58. mínútu hefði Liverpool getað komist yfir, en þá sýndi Carroll stórglæsileg tilþrif! Hann fékk boltann inn í teig eftir innkast, lagði hann fyrir sig með kollinum og tók síðan magnaða bakfallspyrnu. Því miður varði Vorm í marki Swansea skotið með tilþrifum. Virkilega skemmtileg tilraun hjá Carroll.

Á 61. mínútu kom fyrsta skiptingin hjá Liverpool, þegar Craig Bellamy kom inn á fyrir Stewart Downing. Hann var ekki lengi að komast inn í leikinn og á 65. mínútu átti hann ágætis skottilraun.

Á 73. mínútu kom Dirk Kuyt inn fyrir Maxi. Á næstu þremur mínútum átti Liverpool tvö ágæt færi. Hið fyrra fékk Daniel Agger eftir hornspyrnu, en skalli hans fór beint á Vorm. Seinna færið kom eftir góð tilþrif Kuyt sem renndi boltanum á Carroll inni í teignum, en enn varði Vorm vel.

Liverpool var á þessu tímabili og næstu mínútum að komast betur inn í leikinn, en á 86. mínútu kom náðarhöggið frá heimamönnum. Þá skoraði Danny Graham eftir laglega sókn og lélega varnarvinnu. Staðan orðin 1-0 og lítið eftir af leiknum.

Á lokamínútunum voru bæði Henderson og Agger nálægt því að skora, en allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan í Wales 1-0 fyrir heimamenn í fremur döprum lokaleik hjá Liverpool.

Swansea: Vorm, Rangel, Williams, Taylor, Caulker, Dyer (Routledge á 79. mín.), Britton, Gylfi Sigurðsson (Gower á 89. mín.), Allen, Sinclair, Graham,  Ónotaðir varamenn: Tate, Monk, Moore, Edwards og Tremmell
 
Mark Swansea: Danny Graham (86. mín.).

Gult spjald: Williams á 45. mín.

Liverpool: Doni, Kelly, Johnson, Carragher, Agger, Downing (Bellamy 61. mín.), Henderson, Shelvey, Rodriguez (Kuyt 73. mín.), Suarez og Carroll. Ónotaðir varamenn: Jones, Coates, Spearing, Sterling og Enrique.

Gult spjald: Andy Carroll á 45. mín.
 
Áhorfendur á Liberty Stadium: 20,605.

Maður leiksins: Alexander Doni. Þessi ágæti markmaður verður ekki sakaður um markið sem Swansea skoraði í dag. Hann varði nokkrum sinnum mjög vel og var vel á verði allan tímann.

Kenny Dalglish: Miðað við hvernig við komumst inn í leikinn í síðari hálfleik er svekkjandi að fá ekkert stig. Markmaðurinn þeirra varði líka ,,brassasparkið" frá Carroll mjög vel, þannig að ef heppnin hefði verið með okkur hefðum við alveg getað fengið meira út úr leiknum. En við erum ekkert að reyna að hlaupa frá sannleikanum. Það að Liverpool skuli enda deildina með 52 stig er auðvitað ekki ásættanlegt. Mér finnst spilamennska okkar í vetur reyndar hafa verðskuldað fleiri stig. Vonandi náum við að snúa gæfunni okkur í hag á næsta tímabili. 

                                                                                Fróðleikur.

- Liverpool hlaut 52 stig í 38 leikjum og endaði í áttunda sæti í deildinni.

- Það er langt síðan Liverpool mætti Swansea á útivelli í efstu deild. Síðast þegar liðin mættust í Wales hét völlur Swansea Vetch Field. Nú heitir hann Liberty Sadium og þangað mætti Liverpool í fyrsta sinn í dag.
 
- En hvað sem nafni vallarins líður hefur Liverpool gengið bölvanlega með Swansea á welskri grundu. Þegar allt er talið var þetta sjöundi sigur Swansea á Liverpool á heimavelli. Í 13 leikjum! Liverpool hefur unnið þrisvar og þrír leikir hafa endað með jafntefli.

- Öll tölfræði okkar manna gegn Swansea er þó ekki afleit. Árið 1990 vann Liverpool metsigur gegn Swansea í 3. umferð bikarkeppninnar, einmitt undir stjórn Kenny Dalglish. Lokatölur í þeim leik urðu 8-0.

Hér gefur að líta viðtal við Kenny Dalglish sem tekið var eftir leik.

Hér gefur að líta myndir frá leiknum af opinberri heimasíðu Liverpool.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan