| Heimir Eyvindarson

Góður sigur á Norwich

Liverpool vann góðan þriggja marka útisigur á Norwich í dag. Luis Suarez gerði öll mörkin í leiknum og þar með sína fyrstu þrennu fyrir Liverpool.

Það var eitt og annað sem kom á óvart við liðsuppstillingu Kenny Dalglish í dag. Kannski helst að Martin Skrtel, sem verið hefur einn traustasti maður liðsins í vetur, hóf leikinn á bekknum. Í hans stað í vörninni kom gamla brýnið Jamie Carragher. Þá var Andy Carroll hvergi sjáanlegur, hvorki á bekknum né í byrjunarliðinu. Eftir leikinn greindi Kenny Dalglish frá því að Carroll ætti við lítilsháttar meiðsli að stríða.

Jafnræði var með liðunum framan af leiknum en á fjögurra mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleik má segja að Luis Suarez hafi gert út um leikinn fyrir okkar menn.

Á 24. mínútu skoraði hann gott mark með vinstri fæti eftir sendingu Steven Gerrard og fjórum mínútum síðar stal hann boltanum af varnarmanni Norwich, brunaði inn í teig og hamraði boltann neðst í fjærhornið. Stórglæsilegt mark og staðan orðin 0-2. Okkar menn búnir að skora tvö mörk úr ekki mikið fleiri skottilraunum. Óvenjuleg staða svo ekki sé meira sagt!

Á 37. mínútu hefði ágætur dómari leiksins, Mark Halsey, vel getað gefið Liverpool vítaspyrnu þegar Ward virtist brjóta á Suarez inn í teig. Halsey lét flautuna hins vegar vera í þetta sinnið og leikurinn hélt áfram.
Það sem eftir lifði hálfleiksins var Liverpool með algjöra yfirburði í leiknum og heimamenn máttu þakka fyrir að halda til búningsherbergja í leikhléi með einungis tvö mörk á bakinu.

Á fyrstu mínútum síðari hálfleiks hélt Liverpool áfram að sækja og sýndi á köflum kunna takta frá yfirstandandi leiktíð. Fyrst þegar Jonjo Shelvey skallaði í slána á 52. mínútu og síðan þremur mínútum síðar þegar sami leikmaður klúðraði líklega besta færi leiksins á óskiljanlegan hátt.

Þrátt fyrir að nýta færin í seinni hálfleik ekki eins vel og í hinum fyrri var Liverpool áfram mun betri aðilinn á vellinum, en eftir því sem leið á hálfleikinn fóru okkar menn að slaka aðeins á klónni. Heimamenn náðu þó aldrei að komast almennilega inn í leikinn, en náðu þó að láta Pepe Reina hafa aðeins fyrir hlutunum í tvígang. Spánverjinn var hinsvegar eins og svo oft áður vandanum vaxinn í markinu og kom í veg fyrir að heimamenn næðu að minnka muninn og hleypa óþarfa spennu í leikinn.

Á 82. mínútu gerði besti maður vallarins, Luis Suarez síðan út um leikinn með marki sem verður lengi í minnum haft. Hann stal boltanum af Ward við miðjulínuna, tók 4-5 skref og skaut síðan yfir Ruddy í marki Norwich, sem hafði hætt sér aðeins of langt fram. Stórskemmtilegt mark af rúmlega 40 metra færi! Staðan 0-3 og úrslitin endanlega ráðin á Carrow Road.

Liverpool: Reina, Johnson, Carragher, Agger, Enrique, Bellamy, Gerrard (Coates 85. mín.), Henderson, Shelvey, Downing og Suarez (Kuyt 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Doni, Skrtel, Spearing, Rodriguez og Kelly.
 
Mörk Liverpool: Suares á 24., 28. og 82. mínútu.
 
Norwich:  Ruddy, Drury (Martin 12. mín.), Barnett, Ward, Naughton, Johnson, Fox (Vaughan 46. mín.), Howson, Pilkington, Bennett, Morrison (Holt 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Wilbraham, Surman, Hoolahan, Steer.

Gul spjöld:  Bennett. Howson, Vaughan og Ward.


Áhorfendur á Carrow Road: 26.890.
 
Maður leiksins:
Luis Suarez. Það er engin spurning hver hlýtur þessa nafnbót í dag. Suarez átti algjörlega frábæran leik og skoraði 3 glæsileg mörk.  

Kenny Dalglish:
Við höfum oft spilað jafnvel í dag án þess að uppskera nokkuð. En í dag gengu hlutirnir upp og strákarnir fengu það sem þeir áttu skilið. Suarez var frábær, eins og svo oft áður, og skoraði þrjú glæsileg mörk. Þetta var góður og verðskuldaður sigur.

Fróðleikur

- Þetta var fyrsta þrenna Luis Suarez fyrir Liverpool og vonandi ekki sú síðasta!

- Þetta var 29. leikur Norwich og Liverpool á Carrow Road.

- Liverpool hefur nú sigrað 11 leiki, 9 hafa endað með jafntefli og Norwich hefur unnið 9.

- Luis Suarez er markahæsti leikmaður Liverpool í Úrvalsdeild á leiktíðinni með 11 mörk. Hann hefur skorað 17 á leiktíðinni og alls hefur hann nú skorað 21 mark með Liverpool í 49 leikjum.  

Hér má sjá viðtal við Kenny Dalglish.

Hér eru myndir úr leiknum af opinberri heimasíðu Liverpool.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan