| Sf. Gutt

Hef ekki nægan orðaforða!

Margir tóku fram stóru lýsingarorðin í gærkvöldi þegar Steven Gerrard skoraði þrennu og tryggði Liverpool 3:0 sigur á Everton. Kenny Dalglish er ekki langskólagenginn maður og hann segist því einfaldlega ekki hafa nógu mikinn orðaforða til að lýsa Steven Gerrard og því hversu góður leikmaður hann sé.

,,Ég er nú bara ekki nógu lærður til að geta bætt við allt það sem aðrir hafa sagt um Steven. Hann hefur verið alveg frábær hjá þessu knattspyrnufélagi. Ég hætti fimmtán ára í skóla og hef ekki svo ýkja mikinn orðaforða. Ég get því bara ekki lýst Steven Gerrard þannig að nógu vel sé. Hann uppskar ríkulega í kvöld og átti sannarlega skilið að skora þrennu. Hinir heimastrákarnir þrír voru heldur ekkert slor."

Þó svo að Steven hafi verið maður leiksins með þrennuna sína þá lagði Kenny áherslu á að allir leikmenn Liverpool hefðu lagt sitt af mörkum þannig að sigur náðist.

,,Allir lögðu geysilega mikið á sig. Maður vinnur ekki Everton 3:0 öðruvísi. Liðið lék frábærlega. Þeir þurftu að berjast af krafti á móti Everton en liðinu hefur vegnað mjög vel. Úrslitin endurspegluðu leik liðsins og við erum mjög ánægðir með að við höfum loksins uppskorið eftir að hafa sýnt mjög góðan leik en við höfum reyndar oft leikið mjög vel hérna. Þetta var sigur liðsheildarinnar. Steven fær auðvitað fyrirsagnirnar og réttilega en hann myndi fyrstur manna segja að hann hefði ekki getað skorað þrjú mörk án hinna leikmannanna."

Hér má sjá fyrirsagnir ýmissa blaða eftir sigur Liverpool.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan