| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Liverpool á tryggt sæti á Wembley um næstu helgi en önnur ferð þangað er möguleiki. Það þarf þó að brjóta blað eða blöð til þess. Liverpool er komið í úrslit í Deildarbikarnum en nú er að sjá hversu langt liðið kemst í F.A. bikarnum. Ætli liðið að komast áfram í F.A. bikarnum verður að ryðja þeim hindrunum úr vegi sem til þarf. Brighton er næsta hindrun og Liverpool hefur enn ekki tekist að hafa betur gegn Mávunum á Anfield. Það blað þarf að brjóta. 

Vonandi nær knattspyrnan að vera í fyrirrúmi þennan sunnudaginn en hún var í aukahlutverki síðast þegar Liverpool mætti til leiks. Luis Suarez var í sviðsljósinu af slæmum ástæðum og hann verður það auðvitað áfram. Öruggt er að það mun reyna verulega á hann innan vallar sem utan. Hann brást þeim sem hann lofaði handabandinu og nú verður hann að ávinna sér virðingu eins vel og mögulega stendur í hans valdi. Hann skuldar þeim, sem stóðu við bakið á honum, að svara öllu sem að honum verður beint með því að sýna sitt rétta andlit á grundum Englands með því að leika eins vel fyrir Liverpool og mögulegt er!

                                                             

                                                                          
                                                        Liverpool v Brighton and Hove Albion 

Ég verð á þessum leik á sunnudaginn og ég var líka í Liverpool liðinu sem tapaði tvær leiktíðar í röð fyrir Brighton í F.A. bikarnum snemma á níunda áratugnum. Albion vann 2:1 á Anfield á leið sinni í úrslitin 1983 og svo unnu þeir 2:0 á gamla leikvangi sínum, Goldstone Ground, árið eftir. Ég á ekki von á að Gus Poyet verði í hvítum skóm eins og Jimmy Melia, stjóri Brighton, á Wembley þegar liðið hans tapaði fyrir Manchester United í aukaleik og hann mun alls ekki vera með eins hárgreiðslu og Jimmy. Ég held samt að Brighton muni láta finna fyrir sér á Anfield.
 
Mávarnir eru að braggast eftir lægð á miðri leiktíð og Gus lætur þá leika á réttan hátt með því að spila boltanum út úr vörninni. Hann breytti ekki hugmyndafræði sinni þegar liðinu gekk illa og leikmenn hans munu hafa fulla trú á að þeir geti unnið Liverpool. Þó að það takist ekki þá er félagið á réttri leið. Þetta er fyrsta leiktíð liðsins eftir að það komst í næst efstu deild á nýjan leik og liðið verður betra að ári.

Í herbúðum Liverpool verða menn ánægðir með að geta farið að spila knattspyrnu aftur eftir það sem gerðist á Old Trafford um síðustu helgi. Hvað svo sem var að brjótast um í höfðinu á Luis Suarez þá hefði hann átt að taka í hönd Patrice Evra fyrir leikinn þó ekki nema til að lægja öldurnar. Að hann skyldi ekki framkvæma handabandið gerði illt verra. Þegar upp var staðið var allt þetta svolítið ógeðfellt og Liverpool lenti í kjölfarið í erfiðri stöðu. Luis hefði átt að taka frumkvæðið fyrir hönd félagsins og gera það sem rétt var. Margt orkaði tvímælis eftir að hann var dæmdur í bannið til dæmis þegar leikmenn klæddust bolunum og rétt viðbrögð hefðu fært aftur nokkra virðingu. Það má því skilja afsökunarbeiðnir Liverpool eftir á.

En hvað varðar þennan leik þá tel ég að Kenny Dalglish muni velja sterkt lið til leiks. Hann er búinn að koma liðinu í úrslit Deildarbikarsins sem fer fram í lok mánaðarins. Því ekki að reyna að komast í tvo bikarúrslitaleiki á sama keppnistímabilinu?

Spá: 2:0.

                                                                                   Til minnis!
 
- Liverpool hefur unnið F.A. bikarinn sjö sinnum. 1965, 1974, 1986, 1989, 1992, 2001 og 2006.

- Þeir Jose Reina, Jamie Carragher og Steven Gerrard voru bikarmeistarar með Liverpool árið 2006.

- Jose Reina er eini leikmaður Liverpool sem hefur leikið alla leiki Liverpool hingað til á leiktíðinni.
 
- Craig Bellamy og Luis Suarez eru markahæstir leikmanna Liverpool með níu mörk.

- Liverpool og Brighton hafa dregist fjórum sinnum saman í sögu þessarar keppni. Bæði lið hafa farið tvívegis áfram.
 
- Liverpool hefur enn ekki unnið Brighton á Anfield í F.A. bikarnum.

- Brighton hefur ekki tapað leik það sem af er þessu ári.

- Sömu lið mættust í Deildarbikarnum í september. Liverpool vann þá 1:2 á heimavelli Brighton með mörkum Craig Bellamy og Dirk Kuyt.
 
Hér eru
 myndir af leikmönnum Liverpool æfa sig fyrir leikinn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan