| Heimir Eyvindarson

Tap á Reebok

Liverpool tapaði illa fyrir Bolton á útivelli í dag. Lokatölur leiksins urðu 3-1 fyrir heimamenn. Grétar Rafn Steinsson skoraði eitt marka Bolton.

Agger, Maxi, Bellamy og Carroll komu inn í byrjunarlið Liverpool á ný í dag og greinilegt að dagskipun Kenny Dalglish var að reyna að sækja öll stigin þrjú til nágrannanna í norðri. Það tókst því miður ekki og Liverpool er því dottið niður í 7. sæti Úrvalsdeildarinnar með 35 stig eftir 21 leik.

Leikurinn byrjaði með miklum látum og áður en við vr litið vorum heimamenn komnir yfir. Á 4. mínútu skoraði Mark Davies laglegt mark eftir gott einstaklingsframtak. Staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn.

Fjórum mínútum síðar var Enrique að gaufast með boltann í vörninni og vissi ekki fyrr en Eagles hirti hann af honum og skaut að marki. Sem betur fór varð ekki mark úr þessum klaufagangi Spánverjans.

Það var ekki fyrr en á 18. mínútu sem hægt er að tala um að Liverpool hafi fengið færi, en þá átti Henderson ágætt skot af um 20 metra færi. Skotið olli Bogdan í marki Bolton reyndar engum vandræðum.

Á 28. mínútu vildu leikmenn Liverpool fá víti þegar Zat Knight virtist handleika knöttinn inni í teig. Kevin Friend, arfaslakur dómari leiksins, sá enga ástæðu til þess að flauta. 

Aðeins mínútu síðar skoraði Nigel Reo-Coker annað mark Bolton eftir góðan undirbúning Eagles og algjöran sofandahátt okkar manna í vörninni. Staða orðin 2-0 á Reebok og útlitið svart.

Á 37. mínútu náði Liverpool að minnka muninn. Þar var að verki Craig Bellamy eftir góðan undirbúning Adam og Carroll. Staðan 2-1 og smá von fyrir okkar menn að fá eitthvað útúr leiknum.

Undir lok fyrri hálfleiks komst Gerrard inn í vítateig Bolton manna en Bogdan varði skot hans úr þröngu færi í horn. Ekkert kom út úr hornspyrnunni. 

Mínútu síðar felldi Adam N´Gog við vítateig okkar manna. Petrov tók góða aukaspyrnu en Reina varði skot hans glæsilega. 

Staðan 2-1 fyrir heimamenn í hálfleik og ekki öll nótt úti enn.

Það tók heimamenn í Bolton ekki nema fimm mínútur að slökkva vonir okkar manna. Þar var að verki sjálfur Grétar Rafn Steinsson sem skoraði glæsilegt mark eftir hornspyrnu. Staðan orðin 3-1 fyrir heimamenn og svo sannarlega á brattann að sækja fyrir gestina frá Liverpool.

Á 64. mínútu komu Kuyt og Downing inn fyrir Maxi og Adam. Innkoma þeirri breytti engu. 

Besta marktilraun Liverpool í síðari hálfleik kom úr heldur óvæntri átt, þegar Daniel Agger geystist fram völlinn og þrumaði boltanum í slána og yfir.

Bellamy átti einnig ágæta marktilraun, en þar með er það nánast upptalið. 

Lokatölur á Reebok 3-1 í döprum leik af hálfu Liverpool.

Bolton: Bogdan, Grétar Rafn, Knight, Wheater, Ricketts, Muamba, Eagles (Tuncay á 90. mþin.), Reo-Coker, M. Davies, Petrov og NGog (K. Davies á 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Pratley, Riley, Lynch, Boyata og O´Halloran.

Mörk Bolton: Mark Davies, Nigel Reo-Coker og Grétar Rafn Steinsson.

Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Enrique, Adam (Kuyt á 64. mín.), Henderson, Bellamy, Gerrard, Rodriguez (Downing á 64. mín.) og Carroll. Ónotaðir varamenn: Doni, Shelvey, Kelly, Coates og Carragher.

Mark Liverpool:
Craig Bellamy (37. mín.).

Gul spjöld: Dirk Kuyt og Jose Enrique.

Áhorfendur á Reebok Stadium: 26.584.

Maður leiksins: Craig Bellamy. Veilsverjinn var eini leikmaður Liverpool sem sýndi ásættanlega baráttu. 

Kenny Dalglish: Þetta var slakasti leikur liðsins frá því ég tók við því. Ef menn halda að þeir geti mætt í leiki í Liverpool búningi með þessu hugarfari þá ættu þeir að hugsa sinn gang.

                                                                                 Fróðleikur

- Liverpool hefur ekki unnið deildarleik á árinu.

- Liverpool hafði unnið síðustu tíu leiki á móti Bolton.

- Craig Bellamy skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni.

- Hann dregur jafnt og þétt á Luis Suarez sem hefur skorað átta.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish sem tekið var eftir leikinn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan