| Sf. Gutt

Enn jafnt á heimavelli!

Liverpool gerði sitt þriðja jafntefli í röð á Anfield þegar Swansea kom í heimsókn. Ekkert löglegt mark var skorað og Svanirnir flugu heim til Wales með eitt stig sem þeir verðskulduðu fyrir góða baráttu.

Kenny Dalglish breytti liði sínu ekkert frá sigurleiknum á móti West Bromwich Albion um síðustu helgi enda ekki ástæða til. Liverpool hóf leikinn vel og Andy Carroll fékk dauðafæri til að ná forystu eftir sjö mínútur. Charlie Adam sendi þá út til vinstri á Stewart Downing sem gaf stórgóða sendingu fyrir markið. Andy fékk boltann í upplögðu marki en fast skot hans small í þverslá. Þar var Andy bæði óheppinn og klaufi því hann hefði sannarlega átt að skora. En þetta var í ellefa skipti á leiktíðinni sem þverslá eða stöng bjargar andstæðingum Liverpool.

Gestirnir voru óstyrkir til að bryja með og allt virtist ætla að ganga vel en mörk létu á sér standa. Á 18. mínútu átti Luis Suarez skot utan vítateigs en boltinn fór framhjá. Tíu mínútum síðar eða svo ógnaði Swansea fyrst. Wayne Routledge sendi fyrir markið frá vinstri. Danny Graham reyndi að ná boltanum fyrir miðju marki en tókst ekki og Jose Reina gerði vel í slá boltann frá. Liverpool sneri vörn í sókn og Charlie reyndi skot sem fór í varnarmann. Luis náði boltanum og komst í góða stöðu en Michel Worm varði skot hans meistaralega neðst í horninu og sló boltann í horn. Eftir hornið átti Stewart skot rétt yfir.  Enn liðu tíu mínútur og Joe Allen ógnaði marki Liverpool en skot hans frá vítateig fór rétt framhjá. Ekkert mark í hálfleik. Liverpool hafði svo sem leikið nokkuð vel á köflum en eins og svo oft áður hingað til á leiktíðinni vantaði mörkin.  

Kenny Dalglish var greinilega ekki sáttur við gang mála í fyrri hálfelik og setti Dirk Kuyt inn á fyrir Jordan Henderson sem ekki hafði leikið vel. Það var greinilegt að gestunum hafði aukist þor fyrst þeir sluppu fram að hálfleik án þess að fá á sig mark. Þeir léku æ betur en leikmenn Liverpool voru æ atkvæðaminni. Á 58. mínútu fékk Jose sendingu aftur og missti einbeitinguna augnablik inni í markteignum. Danny Graham sótti að honum og Jose rétt kom boltanum í burtu áður en illa fór. 

Á 64. mínútu komst Nathan Dyer upp að vítateig eftir gott spil en Jose kom vel út á móti langt út og lokaði á hann. Rétt á eftir varð Jose enn að taka á honum stóra sínum og það tvívegis. Fyrst varði hann skot frá Nathan en missti boltann. Danny náði frákastinu en Jose varði aftur. 

Það var ekki fyrr en á lokakaflanum sem leikmenn Liverpool fóru að gera vart við sig aftur. Þegar ellefu mínútur voru eftir tók Charlie horn frá hægri. Eftir það skallaði Daniel Agger boltann rétt yfir. En Swansea hélt áfram að sækja og sex mínútum fyrir leikslok kom dauðafæri. Eftir gott spil fékk Mark Gower boltann í miðjum vítateig en þrumuskot hans fór langt upp í Kop stúkuna.

Liverpool gerði harða hríð að marki Swansea undir blálokin. Fyrst átti Luis fallegt skot rétt við vítateiginn en Michael varði glæsilega með að slá boltann frá. Mark kom svo þegar tvær mínútur voru eftir. Eftir harða sókn skallaði Daniel að marki á Dirk sem henti sér fram og skallaði í mark. Línuvörðurinn dæmdi þó markið af vegna rangstöðu og var það réttur dómur en þó var möguleiki á að boltinn hefði farið af varnarmanni á leið sinni á Dirk og ef svo var hefði ekki verið rangstaða. Enn sótti Liverpool og Glen Johnson náði föstu skoti við vítateiginn. Viðstaddir sáu boltann inni en Michael varði ótrúlega með því að slá boltann yfir. 

Eitt besta færið kom svo eftir að Jose Enrique braust inn í vítateiginn. Hann ákvað að skjóta á markið en skotið fór víðsfjarri. Þar fór Spánverjinn hræðilega að ráði sínu því Dirk var frír á markteignum og Jose hefði betur gefið á hann. Þar fór síðasta færið og þriðja jafntefli Liverpool í röð á Anfield varð niðurstaða mála. Reyndar vildi Luis fá víti í atganginum undir lokin en ekkert var dæmt. Langt frá því nógu gott og nú verða menn að herða sig ef Evrópusæti á að nást!

Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Jose Enrique, Henderson (Kuyt 46. mín.), Leiva, Adam, Downing, Carroll (Bellamy 74. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Doni, Rodriguez, Coates, Spearing, Kelly og Bellamy.
 
Gul spjöld: Daniel Agger og Charlie Adam.
 
Swansea City: Vorm, Rangel, Monk, Williams, Taylor, Gower (Agustien 90. mín.), Britton, Allen, Routledge (Sinclair 74. mín.), Graham og Dyer. Ónotaðir varamenn: Tremmel, Sinclair, Lita, Moore, Richards og Moras.
 
Gul spjöld: Neil Taylor og Ashley Williams.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 45,013.

Maður leiksins: Jose Reina. Það er kannski skrýtið að velja markmann Liverpool sem mann leiksins á heimavelli en Spánverjinn hélt hreinu og það tryggði stig.

Kenny Dalglish: Ég varð fyrir vonbrigðum með leik okkar. Swansea lék eins og við áttum von á en við lékum ekki eins og við eigum að okkur. Allt sem við gerum venjulega vel var fátítt í dag. Við spilum boltanum oftast vel og það er hreyfing á mönnum en það var ekki mikið um það og við misstum boltann oft þegar við náðum honum. 

                                                                          Fróðleikur:

- Liverpool hefur nú leikið átta leiki í röð án taps.  

- Þetta var þriðja jafntefli Liverpool í röð á Anfield Road.
 
- Swansea hefur aldrei unnið deildarleik á Anfield.

- Michel Worn lék á síðustu leiktíð á Anfield og hélt líka hreinu. Hann stóð þá í marki hollenska liðsins Utrecht. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv. 

Hér er viðtal við Kenny Dalglish sem tekið var eftir leik. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan