| Sf. Gutt

Vildi Raul fara eða ekki?

Vildi Raul Meireles fara frá Liverpool eða vildi hann vera um kyrrt? Hann segist sjálfur hafa viljað vera áfram en það hafi ekki verið í boði og hann hafi fengið beiðni frá félaginu um að biðja formlega um að fara fram á sölu. Hann segir að félagið hafi ekki staðið við eitt loforð sem honum var gefið.

Það loforð mun hafa snúist um ríflega kauphækkun sem Raul átti að fá núna eftir eitt ár hjá Liverpool að því tilskildu að hann myndi standa sig vel á sinni fyrstu leiktíð. Með réttu gat Raul talið að hann hefði uppfyllt þetta því hann stóð sig prýðilega. Þetta loforð var auðvitað hluti af samningagerð fyrrum eigenda Liverpool en nú eru önnur viðmið hjá félaginu þegar samningar eru gerðir við nýja leikmenn.  

Á hinn bóginn segir Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, að Raul hafi sjálfur beðið um að vera seldur þar sem hann hefði hug á að spila með öðru liði. Damien segir að það hafi ekki staðið til hjá Liverpool að selja Raul en það hafi ekki verið annað hægt eftir að hann bað um að vera seldur. 

Það er sannarlega ekki gott að segja hvað það rétta er í þessu máli og kannski skiptir það engu máli hér eftir. Staðreyndin er sú að Raul Meireles er nú orðinn leikmaður Chelsea.

  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan