| Sf. Gutt

Raul Meireles farinn til Chelsea!

Á allra síðustu stundu áður en lokað var fyrir félagaskipti náði Raul Meireles að komast til Chelsea. Segja má að hann hafi haft það eins og Fernando Torres í vetur þegar hann fór þá sömu leið. Sem sagt að biðja um sölu á síðustu stundu.

Talið er að Liverpool hafi fengið um tólf milljónir sterlingspunda fyrir þann portúgalska. Hann var keyptur frá Porto síðasta sumar fyrir ellefu og hálfa milljón.

Núna fyrr í vikunni gerði Chelsea tilboð í Raul. Tilboðinu var snarlega hafnað. En núna í kvöld, þegar hálftími eða svo var til loka félagaskiptatímabilsins, var tilkynnt á sjónvarpsstöð Liverpool að Raul hefði farið skriflega fram á að vera seldur. Þetta kom öllum í opna skjöldu en greinilegt var að Raul vildi fara til Chelsea sem svo varð úr. 

Raul stóð sig mjög vel hjá Liverpool á síðasta keppnistímabili og var með allra bestu mönnum liðsins. Flestir voru sammála um að hann hefði reynst best af þeim leikmönnum sem Roy Hodgson keypti en reyndar lék hann enn betur eftir að Kenny Dalglish tók við. Orðrómur var um það í allt sumar að Raul myndi fara en brottför hans kemur samt mjög á óvart.

Raul Meireles kom inn á sem varamaður í tveimur fyrstu deildarleikjunum en var í byrjunarliðinu í Deildarbikarnum gegn Exeter. Hann meiddist á viðbeini í þeim leik og gat ekki verið með gegn Bolton um helgina. Hann lék 44 leiki með Liverpool og skoraði fimm mörk.

Við óskum Raul góðs gengis og þökkum samveru þó stutt væri.

     
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan