| Heimir Eyvindarson

Fer Mascherano til Inter?

Liverpool Echo segir frá því í dag að Rafa Benítez muni reyna hvað hann geti til að koma Javier Mascherano í raðir Inter Milan fyrir næstu leiktíð.
 


Áhugi Inter á Mascherano er ekki nýr af nálinni og vitað er að Rafa hefur mikið álit á honum, en fyrr í sumar hafði eigandi Inter, Massimo Moratti, sagt að verðmiðinn sem Liverpool setti á kappann væri einfaldlega of hár.

Nú er Inter hinsvegar á góðri leið með að selja vandræðagemsann Mario Balotelli til Manchester City og talið er að kaupverðið verði nálægt 28 milljónum punda, sem er ekki ólíklegt þegar City er annars vegar. Það gæti gefið Rafa tækifæri til að opna veskið og næla í Mascherano.

Meðan Rafa var enn hjá Liverpool sagði hann forráðamönnum Barcelona, sem föluðust eftir Mascherano, að verðið væri 50 milljónir punda, en ólíklegt er talið að Liverpool fái meira en 35 milljónir punda fyrir kappann.

Mascherano hefur sjálfur lýst því yfir að hann vilji spila á Ítalíu eða Spáni næsta vetur og hann er sagður hafa dundað sér við að læra ítölsku á meðan hann var á HM.

Samkvæmt frétt Liverpool Echo mun umboðsmaður Javier Mascherano, Marco Piccioli hafa sagt að ekkert sé ákveðið um framtíð Argentínumannsins.

,,Benítez og Mascherano kemur mjög vel saman, það vitum við, en það er ekki alltaf nóg til að taka ákvörðun um að setjast að í öðru landi og byrja hjá öðru félagi. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Þetta skýrist áður en félagaskiptaglugganum lokar", segir Piccioli.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan