| Sf. Gutt

Liverpool sló Benfica út!

Liverpool er komið í undanúrslit í Evrópudeildinni eftir að hafa slegið Benfica úr leik eftir góðan 4:1 sigur á Anfield Road. Enn er von um titil!

Þjóðsögnurinn var sunginn af krafti fyrir leikinn og allt var tilbúið í Evrópukvöld á Anfield þegar leikurinn hófst. Liverpool byrjaði þó ekki vel og portúgalska liðið var sterkari aðilinn á upphafskafla leiksins. Það komu þó ekki nein opin færi en ljóst mátti vera að ekkert yrði gefið eftir.

Liverpool komst svo svolítið óvænt yfir á 28. mínútu. Steven Gerrard tók hornspyrnu frá vinstri. Boltinn rataði beint á höfuðið á Dirk Kuyt sem náði að skalla boltann í markið fyrir miðju marki inni á markteignum. Markið var eftir sama uppdrætti og það sem Dirk skoraði gegn Everton fyrr á árinu. En fögnuður leikmanna Liverpool stöðvaðist fljótlega því annar línuvörðurinn dæmdi rangstöðu. Dómarinn tók, sem betur fer og réttilega völdin, og dæmdi markið gott og gilt! Nú var hægt að fagna!

Liverpool var nú komið á bragðið enda liðið komið í vinningsstöðu vegna útimarksins. Enn batnaði staðan á 34. mínútu. Liverpool sneri þá vörn í sókn af krafti. Yossi Benayoun fékk boltann við miðjuna og sendi hann á Steven. Fyrirliðinn var fljótur að hugsa og gaf hárnákvæma sendingu inn á Lucas Leiva sem stakk sér í gegnum vörn Benfica. Hann tók sprett inn á vítateiginn þar sem hann lék laglega á Julio Ceser í markinu áður en hann renndi boltanum í autt markið. Frábært mark og fyrsta mark Lucas á leiðtíðinni gat ekki komið á betri tíma! Hann átti svo sannarlega skilið að skora.

Benfica fór nú að sækja á nýjan leik og á 38. mínútu var dæmd aukaspyrna á Liverpool rétt utan vítateigs. Oscar Cardoza tók hans en skotið fór beint á Jose Reina. Rétt fyrir hálfleik slapp mark Liverpool á ótrúlegan hátt. Sending kom inn á vítateiginn þar sem Sidnei kom boltanum að markinu en rétt við marklínuna fór hann í tvo leikmenn Liverpool og svo framhjá. Liverpool hafði því 2:0 forystu þegar að leikhléinu kom.
 
Liverpool hafði góð tök á leiknum eftir leikhlé og á 55. mínútu munaði litlu að Luisao skoraði sjálfsmark en Julio bjargaði á síðustu stundu. Eftir þetta var tíðindalítið þar til næsta mark kom á 59. mínútu. Benfica átti þá aukaspyrnu vinstra megin. Boltinn var sendur inn á vítateiginn en vörn Liverpool kom boltanum út úr teignum. Javier Mascherano sendi fram á Yossi sem tók sprett í fram völlinn. Þegar hann nálgaðist vítateiginn gaf hann út til hægri á Dirk sem negldi boltann í fyrsta aftur þvert fyrir markið. Við markteiginn kom Fernando Torres á fullri ferð og smellti boltanum í markið! Stórglæsilegt mark og eitt það fallegasta á keppnistímabilinu! Fullkomin skyndisókn!

Nú töldu flestir að björninn væri unninn en það var enn líf í Benfica og á 70. mínútu minnkuðu þeir muninn. Oscar Cordozo tók þá aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Hann hitti boltann vel sem fór í gegnum varnarvegg Liverpool og í markið. Nú vantaði Benfica bara eitt mark til að slá Liverpool út. Nokkrum mínútum seinna fékk Benfica aftur aukaspyrnu á svipuðum slóðum. Oscar tók hana en boltinn fór í höfuð Fernando og rétt framhjá. Þar munaði litlu!

Það var þó ljóst að litlu mátti muna og spennan jókst með hverri mínútunni. Átta mínútum fyrir leikslok kláraði Liverpool sem betur fer rimmuna. Lucas fórnaði sér í tæklingu á miðjunni og vann boltann. Steven hirti boltann og lagði hann til baka á Javier. Hann stakk boltanum fram á Fernando sem lék inn í vítateiginn. Varamarkmaður Benfica kom út á móti en Fernando fipaðist hvergi og lyfti boltanum meistaralega yfir hann og í markið! Enn og aftur glæsilegt mark. Nú var sigur Liverpool og áframhald í höfn. Það var mikið fagnað á Anfield og víðar og þjóðsögnurinn var sunginn eins og í byrjun leiks! 

Evrópuvegferð Liverpol heldur áfram og kvöldið reyndist vera eitt af þeim Evrópukvöldunum sem hvergi finnast svona nema á knattspyrnuleikvangi sem heitir Anfield Road og er í Liverpool á Englandi!!!!

Liverpool: Reina, Johnson, Agger, Kyrgiakos, Carragher, Gerrard (Aquilani 88. mín.), Benayoun (El Zhar 90. mín.), Mascherano, Lucas, Torres (Ngog 86. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Degen, Ayala og Pacheco.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (28. mín.), Lucas Leiva ( 34. mín.) og Fernando Torres (59. og 82. mín.).

Gul spjöld: Yossi Benayoun. 

Benfica: Julio Cesar (Moreira 79. mín.), Luisao, David Luiz, Sidnei, Ruben Amorim, Javi Garcia, Ramires, Aimar (Fabio Coentrao 86. mín.), Carlos Martins (Alan Kardec 66. mín.), Di Maria og Cardozo. Ónotaðir varamenn: Pereira, Felipe Menezes, og Eder Luis.

Mark Benfica: Oscar Cardozo (70. mín.).

Gul spjöld: Pablo Aimar. 

Áhorfendur á Anfield Road: 42.377.

Það helsta: Liverpool vann samtals 5:3 og mætir Atletico Madrid í undanúrslitum. Fulham og Hamburger SV leika í hinum undanúrslitaleiknum.  

Maður leiksins: Lucas Leiva. Brasilíumaðurinn var gríðarlega duglegur á miðjunni og markið hans var með þeim fallegri og mikilvægari hjá Liverpool á keppnistímabilinu. Hann átti sannarlega skilið að skora loksins eftir að hafa oft leikið vel í vetur.

Rafael Benítez: Við sýndum góðan leik gegn mjög sterku liði og það má segja að það sé vel af sér vikið að skora fjögur mörk. Ég held samt að við höfum spilað betur á þessu keppnistímabili. Allir sigrar eru mikilvægir og þá sérstaklega þegar svona langt er komið í keppninni. Það myndi gleðja mig mikið ef við kæmumst í úrslitaleikinn og ynnum hann.

                                                                              Fróðleikur.

- Liverpool er komið í undanúrslit í Evrópudeildinni.
  
- Liverpool vann loks Benfica eftir fjögur töp í röð fyrir portúgalska liðinu.

- Fyrir þennan leik hafði Benfica leikið 26 leiki í röð án taps.

- Fernando Torres er nú kominn með 22 mörk á þessu keppnistímabili.
 
- Fernando varð fyrstur manna í sögu Liverpool til að skora tvö mörk í fjórum leikjum í röð á Anfield.

- Dirk Kuyt skoraði sitt 11. mark á keppnistímabilinu.

- Lucas Leiva skoraði í fyrsta sinn á sparktíðinni.

- Glen Johnson lék sinn 30. leik með Liverpool. Hann hefur skorað þrjú mörk.
 
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Sky sport.







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan