| Grétar Magnússon

Verðum að vonast eftir kraftaverki nú

Dirk Kuyt er raunsær maður og gerir sér grein fyrir því að nú þurfi nánast kraftaverk til að Manchester United hampi ekki Englandsmeistaratitlinum á þessum tímabili.

Annan leikinn í röð voru lokatölur 4-4 og var leikurinn í gær líklegur kandídat um titilinn leikur tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.  Stigið sem vannst í gær var nóg til þess að tylla sér á topp deildarinnar vegna betri markatölu liðsins en nú eiga Manchester United tvo leiki til góða.

Kuyt segir að nú sé nánast ómögulegt að gera sér vonir um að 19 ára bið félagsins eftir deildartitlinum sé að ljúka.  Hann segir hinsvegar að enginn á Anfield hafi gefið upp vonina.

,,Staðan er erfiðari eftir leikinn í gærkvöldi því við vissum að sigur var það eina sem myndi duga til að halda pressunni á Man Utd.  En við náðum þó að minnsta kosti jafntefli og verðum að berjast allt til loka."

,,Við verðum að vonast eftir kraftaverki því nú er þetta orðið mun erfiðara en það var fyrir en það má þó sjá að liðið hefur ekki gefist upp enn og við munum aldrei gera það.  Við skulum því vona að kraftaverkið gerist."

Andrey Arshavin skoraði öll fjögur mörk Arsenal og náði hann að nýta sér dýrkeypt mistök varnarmanna Liverpool í leiknum.  Yossi Benayoun og Fernando Torres skoruðu sín tvö mörkin hvor og dugði það til að ná í jafnteflið.  Kuyt segir að nú megi engin mistök gera ef ekki á að mistakast að sækja á United á toppi deildarinnar.

,,Við spiluðum vel og gerðum aðeins fjögur mistök í öllum leiknum en því miður þá kostuðu þessi mistök 2 stig.  Öll mörk þeirra komu eftir mistök okkar og það er eitthvað sem við verðum að breyta en við verðum að halda einbeitingunni fyrir næsta leik.  Ef við vinnum alla okkar leiki þá munu þeir (United) kannski lenda í ströggli.  Þeir eiga tvo leiki til góða og geta náð sex stiga forystu, þeir þurfa því að tapa tveim leikjum og það getur alveg gerst."

,,Stigið sem við fengum var mikilvægt því annars hefðum við getað lent sjö stigum á eftir þeim og þá hefði staðan verið nánast vonlaus."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan