| Grétar Magnússon

Glatað tækifæri

Sammy Lee viðurkennir að Liverpool hafi misst af góðu tækifæri til þess að ná fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar eftir að hafa gert jafntefli við Arsenal.  Leikmenn Liverpool hafi ekki náð að nýta sér það að vera einum fleiri síðasta hálftímann.

Sammy Lee stjórnaði liðinu í fjarveru Rafael Benítez sem var að jafna sig eftir nýrnasteinaaðgerð.  Lee segir að leikmennirnir hafi verið vonsviknir yfir því að hafa ekki náð fjögurra stiga forystu á Chelsea.

,,Fyrirfram hefðum við sætt okkur við stig, en eftirá að hyggja eru strákarnir svolítið vonsviknir," sagði Lee.

,,Menn eru vonsviknir yfir því að hafa ekki náð að opna þá meira eftir að þeir misstu mann af velli.  Arsenal, og ég hrósa þeim fyrir það, vörðust vel og gáfu okkur ekki stjórnina.  Þeir héldu sínu og voru fastir fyrir.  Við reyndum að gera sem mest úr því að vera einum fleiri en mér fannst við ekki ná því, þess vegna er ég vonsvikinn."

,,Við þurftum að passa okkur þegar við sóttum framávið að þeir myndu ekki ná skyndisókn á okkur.  Strákarnir stóðu sig vel.  Arsenal voru skipulagðir en við vorum það einnig.  Það er engin spurning um það að við reyndum að vinna leikinn.  Þetta er Liverpool og við reynum að vinna alla leiki."

,,En ég verð að hrósa Arsenal mikið fyrir það hvernig þeir brugðust við eftir að hafa misst mann af velli.  En ég verð að hrósa mínum mönnum einnig því þeir komu til baka og sáu til þess að við fengum eitt stig útúr leiknum," bætti Lee við.

Úrslitin þýða að Chelsea geta komist á toppinn í kvöld með sigri á Everton á útivelli.

Rafa Benítez var heima hjá sér að jafna sig eftir aðgerðina og var í stöðugu sambandi við markmannsþjálfarann Xavi Valero í gegnum gsm síma.

Sammy Lee bætti við:  ,,Rafa var í stöðugu sambandi á meðan leiknum stóð, hann þarf því að hafa áhyggjur af ansi stórum símreikning næst !  Það hefði aldrei verið vandamál að vera í sambandi við hann í dag því tæknin er orðin þannig."

,,Hann var í sambandi fyrir og eftir leik.  Þetta er frábær vitnisburður um fagmennsku hans.  Hann hefur verið mikið kvalinn af sársauka en ég vona að hann geti núna slakað aðeins á og verið 100% klár fyrir leikina um jólin."

,,Hann sagðist hafa verið ánægður með strákana og var mjög jákvæður.  Hann gerði sér grein fyrir því að þetta var gott stig vegna þess að Arsenal eru mjög gott fótboltalið."

Jöfnunarmark Robbie Keane var aðeins hans þriðja mark í deildinni á tímabilinu og fékk Írinn nú loks tækifæri í liðinu eftir að hafa ekkert komið við sögu í leikjunum við Blackburn og Hull.

Lee sagði:  ,,Mörk gefa manni alltaf sjálfstraust.  Robbie hefur ekki vantað sjálfstraustið, ef maður fylgdist með honum í dag þá mátti vel sjá það.  Við höfum minnst á það áður, en þegar ég og Rafa setjumst niður og veljum liðið, þá tökum við allt með í reikninginn sem getur gerst í einum leik."

,,Við vitum vel af því prógrammi sem liggur fyrir og við verðum að nota alla okkar leikmenn.  Þetta er langt og strangt tímabil og við verðum að ganga úr skugga um að allir séu klárir."

Um brottrekstur Adebayor sagði Lee:  ,,Ég hef ekki séð þetta aftur.  En þetta var brot ef ég á að vera hreinskilinn.  Þa ð hvernig þetta var túlkað fer náttúrulega algjörlega eftir dómaranum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan