Steven skallaði Liverpool áfram!
Steven Gerrard tryggði Liverpool farseðilinn í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar með eina marki leiksins gegn Marseille á Anfield Road. Liverpool lék ekki vel en hafði nauman sigur í tilþrifalitlum leik. Nú á bara eftir að sjá hvort Liverpool eða Atletico Madrid vinnur riðilinn.
Steven Gerrard sneri aftur í byrjunarlið Liverpool eftir meiðsli. Leikurinn byrjaði rólega og lengi vel gerðist fátt markvert. Það fyrsta sem kveikti í áhorfendum var þegar Liverpool skoraði á 23. mínútu. Fernando Torres braust þá kröftuglega framhjá varnarmanni hægra megin og sendi góða sendingu fyrir markið. Dirk Kuyt náði skalla á markið en Steve Mandanda markmaður gestanna varði í horn. Upp úr hornspyrnunni gekk boltinn aftur yfir til hægri. Xabi Alonso fékk sendingu upp í hægra hornið þaðan sem hann sendi frábæra fyrirgjöf inn á teiginn. Við fjærstöngina hafði Steven Gerrard laumað sér inn að markteignum og hann skoraði með skalla upp í markhornið. Þrítugasta Evrópumark fyrirliðans og það kom á góðum tíma. Fátt meira gerðist fyrr en á 35. mínútu þegar Taye Taiwo átti langskot úr aukaspyrnu sem Jose Reina varði í stöng. Á lokamínútu hálfleiksins átti svo Albert Riera fast skot frá vítateig sem Steve bjargaði í horn.
Enn ein meiðsli Fabio Aurelio þýddu að Andrea Dossena kom inn sem varamaður í leikhléi. Liverpool hafði aldrei komist almennilega í gang í leiknum og gestirnir sótti meir og meir í sig veðrið. Snemma í hálfleiknum varði Jose Reina skot frá Mamadou Niang. Marseille náði oft snörpum sóknum og þá sérstaklega upp vinstra megin þar sem Andrea átti oft í vandræðum. Litlu munaði að hann gæfi vítaspyrnu þegar hann braut á hinum skæða Hatem Ben Arfa rétt við vítateigslínuna. Brotið var þó utan teigs. Á 62. mínútu þurfti Jose að taka á honum stóra sínum við að verja aukaspyrnu frá Hatem. Jose henti sér til hliðar og varði í horn. Frábær markvarsla! Liverpool fékk aukaspyrnu þegar um fimmtán mínútur voru eftir. Xabi reyndi að lauma boltanum neðst í hornið framhjá varnarveggnum en boltinn fór rétt til hliðar við markið. Vörn Liverpool hélt og Andrea gerði eitt sinn vel í að komast fyrir skot í teignum og líklega var það besta færi gestanna. Undir lokin gáfu leikmenn Liverpool engin færi á sér og náðu að landa sigri. Sigurinn var smá hefnd fyrir tapið gegn Marseille á síðustu leiktíð. Liverpool er þar með komið í 16 liða úrslita Meistaradeildarinnar eins og að var stefnt en sigurinn í kvöld var naumur en að sama skapi kærkominn.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Aurelio (Dossena 46. mín.), Mascherano, Alonso, Kuyt (Leiva 85. mín.), Gerrard, Riera (Benayoun 63. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Keane, Babel og Kelly.
Mark Liverpool: Steven Gerrard (23. mín.).
Gult spjald: Javier Mascherano.
Marseille: Mandanda, Bonnart (Samassa 89. mín.), Zubar, Hilton, Taiwo, Ziani, Cana, Cheyrou, Ben Arfa, Niang og Kone (Valbuena 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Riou, Rodriguez, Zenden, Kabore og Grandin.
Gult spjald: Mamadou Niang.
Áhorfendur á Anfield Road: 40.024.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn var mjög duglegur á miðjunni og spilaði boltanum vel. Hann lagði svo upp sigurmarkið með frábærri fyrirgjöf sem besti kantmaður hefði getað verið stoltur af. Xabi var líka harðskeyttur í varnarleik þegar með þurfti.
Rafael Benítez: Mér fannst þetta svolítið skrýtinn leikur. Við skoruðum mark en svo fóru þeir að sækja og við urðum að beita skyndisóknum. Mestu máli skiptir fyrir okkur að vita til þess að við höfum klárað okkar verk og erum komnir í 16 liða úrslit.
Fróðleiksmolar: - Liverpool tryggði sér sæti í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. - Steven Gerrard skoraði áttunda mark sitt á leiktíðinni. - Hann er búinn að skora fimm Evrópumörk og er markahæstur í keppninni ásamt Lionel Messi leikmanni Barcelona. -Rafael Benítez stýrði Liverpool í 66 Evrópuleik sínum sem er félagsmet. - Ungliðinn Martin Kelly var í fyrsta skipti í aðalliðshópnum.
Í hinum leiknum í D riðli vann Atletico Madrid 2:1 sigur á PSV Eindhoven á Spáni.
Staðan í D riðli er nú svona:
Atletico Madrid 5. 3. 2. 0. 9:4. 11
Liverpool 5. 3. 2. 0. 8:4. 11
Marseille 5. 1. 0. 4. 5:7. 3
PSV Eindhoven 5. 1. 0. 4. 4:11. 3
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
-
| Sf. Gutt
Steven syrgir Sven -
| Sf. Gutt
Harvey Elliott meiddur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Brighton og Liverpool – Leicester -
| Sf. Gutt
Nýr búningur kynntur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Frábær úrslit! -
| Sf. Gutt
Merkileg tímamót!