| Sf. Gutt

Philipp Degen er niðurbrotinn

Það hefur allt gengið á afturfótunum hjá Svisslendingnum Philipp Degen eftir að hann kom til Liverpool. Hann er nú meiddur í þriðja sinn og verður frá leik í rúman mánuð.

Hann meiddist á fæti undir lok Deildarbikarleiks Liverpool og Tottenham Hotspur í síðustu viku.

Philipp meiddist á nára í æfingaleik áður en leiktíðin hófst. Hann kom svo til leiks eftir þau meiðsli gegn Crewe í Deildarbikarnum en síðubrotnaði í þeim leik.

Svisslendingurinn var svo nýlega orðinn góður af þeim meiðslum þegar hann meiddist gegn Tottenham. Ekki bættu meiðslin úr skák því Philipp hafði spilað illa í leiknum. Eftir leikinn kom í ljós að hann er ristarbrotinn. Það er því kannski ekki skrýtið þótt Phillipp sé niðurbrotinn.

"Þetta er það versta sem hefur nokkurn tíma komið fyrir mig. Ég brast í grát í búningsklefanum eftir leikinn. Gareth Bale, leikmaður Tottenham, braut illa á mér en ég fékk ekki einu sinni vítaspyrnu. Það er brotið bein í fætinum og ég get ekki spilað í fjórar til sex vikur. Ég spyr mig sjálfan mig látlaust hvort ég hafi gert eitthvað rangt í fyrra lífi."

Þess má geta að Gareth Bale braut á Philipp innan vítateigs þegar um átta mínútur voru til leiksloka. Staðan var þá 4:2 fyrir Tottenham og vítaspyrna hefði getað gefið Liverpool möguleika á að jafna. Dómarinn dæmdi þó ekkert en Rafael Benítez benti á, eftir leik, að ristarbrot Svisslendingsins væri örugg sönnun þess að Liverpool hefði átt að fá vítaspyrnu!

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan