| Sf. Gutt

Evrópumeistarinn tryggði sigur í fyrsta leik

Fernando Torres hélt áfram þaðan sem frá var horfið á síðustu leiktíð og síðdegis í dag tryggði hann Liverpool þrjú stig í fyrsta deildarleiknum. Liverpool mátti hafa fyrir hlutunum í Sunderland og sigurinn var harðsóttur. Þrjú dýrmæt stig komin í hús.

Leikmenn Sunderland hófu leikinn af miklum krafti eins og sæmir heimaliði á fyrsta leikdegi. Heldur voru nú leikmenn Liverpool betur vaknaðir en í Belgíu á dögunum en það skall hurð nærri hælum á 5. mínútu. Sami Hyypia, sem kom inn í liðið fyrir Daniel Agger, skallaði þá boltann í átt að eigin marki. Ekki tókst betur til en svo að boltinn fór beint á fyrrum félaga hans El-Hadji Diouf sem lék sinn fyrsta leik með Svörtu köttunum. Senegalinn komst einn inn á teiginn en þar náði Jamie Carragher að bjarga málum og koma boltanum frá. Finninn var ryðgaður fyrstu mínúturnar en eftir að hann var búinn að liðka sig steig hann ekki feilspor það sem eftir var leiks og var gríðarlega sterkur í vörninni. Á 13. mínútu vann leikmaður Sunderland boltann af Dirk Kuyt vinstra megin við vítateiginn. El-Hadji sendi fyrir á Daryl Murphy en skalli hans fór beint á Jose Reina. Mjög gott færi og eins gott að skallinn hjá Daryl var ekki nákvæmari. Sunderland var sterkari aðilinn fram eftir öllum hálfleik. Það var ekki fyrr en á 43. mínútu sem Liverpool fékk sitt fyrsta færi sem eitthvað kvað að. Robbie Keane náði þá að snúa varnarmann af sér rétt utan vítateigs og skjóta að marki en boltinn fór rétt framhjá.

Rafael Benítez skipti Xabi Alonso inn í leikhléi fyrir Damien Plessis. Nú er úr fleiri varamönnum að velja en áður í deildarleikjum en þeim var fjölgað úr fimm í sjö fyrir leiktíðina. Þessi skipting var til bóta og miðjan hjá Liverpool styrktist. Það var jafnræði með liðunum í byrjun síðari hálfleiks en svo fór Liverpool að ná yfirhöndinni. Á 59. mínútu sendi Yossi Benayoun góða sendingu inn á Steven Gerrard sem komst inn á teiginn. Hann skaut að marki en varnarmaður komst fyrir. Á 73. mínútu hefði Liverpool átt að skora. Dirk átti þá skot sem fór í varnarmann. Craig Gordon gerði vel í að verja en náði ekki að halda boltanum sem barst til Fernando Torres. Robbie Keane var líka kominn á vettvang en ekki tókst betur til en svo að Spánverjinn skaut í Írann og heimamenn sluppu! Robbie náði sér ekki á strik og Rafael sendi marokkóska strákinn Nabil El Zhar inn á í hans stað þrettán mínútum fyrir leikslok. Á 81. mínútu var Xabi næstum búinn að skora frá sínum vallarhelmingi. Hann sá að Craig var framarlega í teignum og skaut. Craig hafnaði inni í markinu en boltinn fór rétt framhjá. Tveimur mínútum síðar lá boltinn hins vegar í markinu. Xabi renndi boltann fram völlinn á Fernando. Hann fékk svolítið svigrúm og áður en varnarmenn heimamanna áttuðu sig hamraði hann boltann neðst í markhornið, af um 25 metra færi, án þess að Craig kæmi nokkrum vörnum við. Frábært mark hjá Fernando og eftirprentun af marki sem hann skoraði á svipuðum slóðum gegn Middlesborough á síðustu leiktíð. Markið í dag færði Liverpool dýrmætan sigur og þrjú stig eru komin í hús! 

Sunderland: Gordon, Chimbonda, Nosworthy, Collins, Bardsley, Malbranque (Edwards 73. mín.), Tainio (Whitehead 57. mín.), Reid, Richardson, Diouf (Chopra 81. mín.) og Murphy. Ónotaðir varamenn: Ward, Leadbitter, Higginbotham og Stokes.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Hyypia, Dossena, Kuyt, Gerrard, Plessis (Alonso 46. mín.), Benayoun (Aurelio 81. mín.), Keane (El Zhar 77. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Ngog og Skrtel.

Mark Liverpool: Fernando Torres (83. mín.).

Gul spjöld: Alvaro Arbeloa og Nabil El Zhar.

Áhorfendur á Stadium of the Light: 43.259.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn hefur oft leikið betur en hann hélt áfram allan leikinn að draga sína menn áfram til sigurs. Ekki gekk allt upp hjá honum en hann fylgdi orðum sínum fyrir leik, um atlögu að titlinum, eftir með gjörðum.

Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Xabi Alonso.

Rafael Benítez: Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera erfiður. Þeir stjórnuðu leiknum fyrstu 45 mínúturnar en fengu áttu ekki nein hættuleg færi fyrir utan eitt skipti. Við vorum undir pressu en það var annað uppi á teningnum í síðari hálfleik. Þá stjórnuðum við ferðinni og sendingarnar okkur voru mun betri. Við vorum mikið með boltann og sóknarleikurinn gekk betur. Þegar upp var staðið þá var það Fernando Torres sem skipti sköpum. Við vitum að hann getur skorað svona mörk en liðið í heild sinni verður að spila vel."

Fróðleiksmoli: Þetta var fimmti deildarsigur Liverpool á Sunderland í röð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan